Waterloo 45 ára


Þá er komið að því að rifja upp merka Eurovisionkeppni sem var haldin fyrir sléttum 45 árum. Lúxemborgarar treystu sér ekki að halda tvær keppnir í röð og enn og aftur voru það Bretar sem tóku það að sér. Eurovisionkeppnin var að þessu sinni haldin í Brighton 6. apríl 1974. Kynnir var Katie Boyle, í fjórða og síðasta sinn. Enn hefur enginn kynnt keppnina oftar. Á þessum tíma mátti syngja á hvaða tungumáli sem er, en sex af 16 lögum voru flutt á ensku og titill lagsins frá Lúxemborg var reyndar líka á ensku, Bye Bye I Love You. Grikkir tóku þátt í fyrsta sinn með lagið Halassa ke to agori mou. Einnig var það sögulegt að þegar portúgalska framlagið E Depois Do Adeus var frumflutt í útvarpi markaði það upphaf Nellikkubyltingarinnar þar í landi.

Hin þekkta Olivia Newton John söng lagið Long Live Love fyrir Bretland. Hún deildi 4. – 6. sæti með atriðunum frá Lúxemborg og Mónakó. Peter Doyle og Marty Kristian sem voru hluti af The New Seekers urðu fyrstu Ástralirnir til að taka þátt í Eurovision árið 1972, en Olivia kom næst. Olivia, sem varð sjötug síðastliðið haust, hefur meðal annars fjórum sinnum hlotið Grammy verðlaun og flutt fimm lög sem hafa náð fyrsta sæti á Billboard Hot 100 listanum. Meðal þekktra laga hennar eru You´re The One That I Want og Hopelessly Devoted To You úr söngleiknum Grease. Einnig hefur hún gert það gott með lögum eins og Xanadu og Physical.

Mouth & the MacNeal hópurinn urðu í 3. sæti með hollenska lagið I See A Star.  Fyrir hópnum fóru Willem Duyn og Sjoukje van’t Spijker. Lagið varð gríðarlega vinsælt og náði inná topp tíu á vinsælarlista í Bretlandi. Þau höfðu áður slegið í gegn árið 1972 með lagið How Do You Do sem náði inn á topp tíu á vinsældarlista í Bandaríkjunum og var í alls 19 vikur á topp 100 lista Billboard.

Í 2. sæti var Gigiola Cinquetti fyrir Ítalíu með lagið Si eða . Á þessum tíma stóð fyrir dyrum þjóðaratkvæðagreiðsla um lögleiðingu hjónaskilnaða á Ítalíu og þótti lagið vera dulin skilaboð um að greiða atkvæði. Gigiola tók einnig þátt í Eurovision tíu árum áður eða árið 1964 og sigraði þá með lagið Non Ho L´Etá. Það er okkur Íslendingum jafnvel enn kunnugra sem Heyr mína bæn í flutningi Ellýjar Vilhjálms. Höfundur íslenska textans er Ólafur Gaukur Þórhallsson, sem var líka höfundur og hljómsveitarstjóri hjá íslenska laginu 1996, Sjúbídú. Gigiola kom að Eurovision í þriðja sinn árið 1991 þegar hún var annar kynnana á Eurovisionkeppninni í Róm.

En það var kvartettinn ABBA frá Svíþjóð sem sigraði með lagið Waterloo, fékk 6 stigum meira en Si. Best að láta að fylgja að kvartettinn ABBA skipa þau Agnetha Faltskog, Björn Ulvaeus, Benny Andersson og Anni-Frid Lyngstad eða Frida. Hljómsveitastjórinn Sven-Olof Walldoff var einnig glæsilegur til fara, klæddur sem Napóelon. Abba hafði líka tekið þátt í Melodifestivalen árið áður með lagið Ring Ring og urðu þá í 3. sæti.

Þetta var byrjunin á farsælum ferli ABBA og slógu þau í gegn í framhaldinu með fjöldan allan af lögum. Dancing Queen og The Winner Takes it All koma fyrst upp þegar ABBA er flett upp á YouTube og er það bara ansi viðeigandi. Það þarf varla að taka það fram að þessi stórsmellur jók heldur betur vinsældir og vegferð Eurovision. Lagið náði efsta sæti á vinsældarlistum í tíu löndum og hæst 49. sæti á Billboard listanum.

Waterloo var valið besta Eurovisionlag allra tíma í sérstökum afmælisþætti sem var haldinn í tilefni af 50 ára afmæli Eurovision í október 2005. Það getur verið erfitt að bera saman vinsældir á ólíkum tímum, en líklegt er að ABBA sé vinsælasti flytjandi allra tíma í Eurovision. Waterloo gæti líka verið vinsælasta lagið samkvæmt ýmsum mælingum og er að öllum líkindum vinsælasta sigurlagið, en Nel Blu Di Pinto Di Blu og L´Amour est Bleu hafa orðið enn vinsælli í Bandaríkjunum og þá einnig í öðrum útgáfum.