Kobi Marimi er fulltrúi Ísraela á heimavelli


Gestgjafarnir frá Ísrael senda hinn 27 ára gamla Kobi Marimi til leiks í Eurovision í ár. Kobi sigraði forkeppnina HaKokhav HaBa L’Eurovizion (“Næsta Eurovision-stjarnan”) þar sem að 105 söngvarar kepptust um að verða fulltrúi Ísraels í Eurovision. Kobi Marimi datt reyndar út úr keppninni en komst aftur inn í úrslitin á eitt lag enn spjaldinu (“wild card”). Hann gerði sér svo lítið fyrir í úrslitunum og sigraði með ábreiðu af laginu Let It Be.

Eftir langt og strangt ferli við að velja flytjandann í forkeppninni sem stóð frá því í nóvember fram í febrúar, var loksins tilkynnt 10. mars að Kobi myndi flytja lagið Home í úrslitum Eurovision í Tel Aviv. Lagið er sérstaklega samið fyrir Kobi og færir persónulega sögu hans og baráttu á svið.

Kobi Marimi er menntaður í leiklist og hefur meðal annars verið útnefndur bjartasta vonin fyrir leik sinn í verkinu Messiah Now árið 2017. Kobi hefur einbeitt sér að leiklistarferlinum og fyrir forkeppnina hafði hann ekki neina reynslu af því að koma fram sem söngvari. Í forkeppninni vakti Kobi athygli fyrir einstakan stíl og rödd.

Ísrael hefur fjórum sinnum sigrað Eurovision – síðast í fyrra þegar Netta sigraði með laginu Toy. Ísraelsmenn tóku fyrst þátt í Eurovision árið 1973 og þurftu þeir ekki að bíða lengi eftir fyrsta sigrinum sem kom árið 1978 þegar Izhar Cohen & Alphabeta unnu með laginu A-Ba-Ni-Bi. Ári síðar á heimavelli í Jerúsalem sigruðu Ísraelsmenn aftur með laginu Hallelujah fluttu af Gali Atari & Milk & Honey. Það reyndist þeim of dýrt að halda keppnina tvö ár í röð svo ísraelska sjónvarpið afsalaði sér heimaleikjaréttinum þannig að keppnin árið 1980 var haldin í Hollandi. Árið 1998 var komið að þriðja sigri Ísraela þegar dívan Dana International sigraði með laginu Diva.

Lagið Home verður fjórtánda atriðið á svið í úrslitum Eurovision þann 18. maí. Þegar þessi pistill er skrifaður eru veðbankar með lagið Home í 25. sæti og í 27. sæti um að lenda í topp tíu – sem þýðir eflaust að veðbankarnir hafa ekkert rosalega mikla trú á því að sagan endurtaki sig og að Ísraelar muni sigra aftur tvö ár í röð, en hver veit?