Zena – litla stríðsprinsessan frá Hvíta-Rússlandi


Hvíta-Rússland tók fyrst þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2004 með hinu ódauðlega My Galileo sem flutt var af Aleksöndru og Konstantin á svo ódauðlegan hátt.

Þeir hafa síðan þá lagt mikla áherslu á að taka alltaf þátt í keppninni en ekkert sérstaklega velt sér upp úr því hvort lögin séu góð eða lagaflytjendurnir geti sungið, getið sungið á ensku eða hvort enski textinn sé yfirhöfuð skiljanlegur eða ekki. Sögusagnir segja að það skipti meira máli að forseti landsins Lukashenko sé ánægður með framlagið en almenningur. Einnig koma reglulega upp ásakanir um keypt atkvæði og annað kosningarsvindl. Burtséð frá því þá má alltaf reikna með 100% skemmtanagildi frá Hvíta-Rússlandi og Eurovision söngvakeppnin sjálf væri ekki nærri jafn skemmtileg ef Hvíta-Rússlandi tæki ekki þátt.

Í ár er það hin kornunga Zena, Zinaida Alexandrovna Kupriyanovich, sem tekur þátt fyrir hönd Hvíta-Rússlands. Hún er yngsti keppandinn í ár, fædd í september 2002 og rétt sleppur með að uppfylla reglur EBU um aldurstakmörk keppenda en þeir verða að vera orðnir 16 ára þegar þeir taka þátt. Hún reyndi í tvígang að vinna undankeppnina í Hvíta-Rússlandi fyrir Junior Eurovision en tapaði í bæði skiptin. Zena reyndi því að að sjálfsögðu við aðalkeppnina um leið og hún var komin með aldur. 

Undankeppninni í Hvíta-Rússlandi í ár fylgdu að sjálfsögðu hin hefðbundnu vafamál og ásakanir um spillingu fengu byr undir báða vængi þegar stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar ákváðu að hætta við að láta símakosningu gilda í úrslitum. Þegar þeir voru spurðir út í þessar breytingar sögðu þeir þetta vera að beiðni keppenda sem hefðu tjáð sér að símakosningin hafi slæm áhrif á þá og léti þeim líða illa. Eftir að hafa velt fyrirkomulagi keppninnar fyrir sér og meðal annars látið speki Lukashenko forseta landsins vísa sér leið, var ákveðið að dómnefndin myndi ein og sér ráða niðurstöðum, eða eins og Ivan Eismont sjónvarpsstóri hvítrússnesku sjónvarpsstöðvarinnar sagði:

Authoritative people were called, with education, with absolute pitch, some celebrities, Koldun was there. We reminded them again what the President told on this occasion: “Guys, close your eyes and think who would you like to see from our country at Eurovision”

Dómnefnin var samstíga og sá keppandi sem þau vildu sjá í Tel Aviv var Zena og fékk hún 69 stig af 70 mögulegum eða nærri því fullt hús stiga. Lagið Like it er klassíkt 90’s popplag a la Britney Spears og fjallar um unglingsstúlku sem er harðákveðin í því að láta strákinn sem hún er skotin í líka við sig. Reyndar er ekki alveg ljóst hvort Zena syngi “Yes, you gonna like it” eins og stendur í textanum á síðu Eurovsion.tv eða hvort það er í raun og veru “Is he gonna like it?” eins og flestum heyrist hún syngja.

Hvort heldur sem er þá er þetta harðákveðin ung stúlka sem nær flestum sínum markmiðum, hvort sem það er að taka þátt í Eurovision eða eignast kærasta.