Bláhærð panda fulltrúi Austurríkis í Tel Aviv


Söngkonan, lagahöfundurinn, framleiðandinn, rafpopparinn og hin bláhærða Pænda hefur verið valinn sem flytjandi Austurríkis í Tel Aviv í vor. Það verða stór fótsporin sem Pænda fetar í kjölfar mikillar velgegni Cesár Sampson sem lenti í 3. sæti í Lissabon í fyrra. Pænda þessi hefur verið að í tónlistinni síðan hún var 14 ára gömul og spilar á gítar og píanó. Hún lærði jazz í Vín og mun í lok apríl gefa út aðra sólóplötu sína. Lagið Limits, sem verður framlag Austurríkis í vor, er einmitt eitt laganna á þeirri plötu. Pænda hefur fylgst með Eurovision síðustu ár og er greinilega aðdáandi því hún segist fíla menningarfjölbreytnina og umburðarlyndið. Hún vissi að ef tækifæri til þátttöku í Eurovision byðist myndi hún stökkva á það. Listamannsnafnið Pænda kemur frá risapöndum en að eigin sögn lítur Pænda út eins og panda á morgnanna – þar höfum við það!

Lagið Limits er eftir Pændu sjálfa og tjáir viðkvæmni og leit hennar að eigin mörkum eins og titillinn gefur til kynna. Pænda hefur einnig látið hafa eftir að sér að um leið og maður eigi að virða sín eigin mörk er samt mikilvægt að trúa á sjálfan sig og finna sína eigin leið.

Austurríki hefur þrátt fyrir að hafa tekið þátt síðan 1957 einungis tvisvar unnið Eurovisionkeppnina. Það var árið 1966 með laginu Merci, Cherie flutt af Udo Jürgens og árið 2014 þegar Conchita Wurst flutti Rise Like A Phoenix. Þeim hefur gengið nokkuð vel síðustu árin, verið í úrslitum samfellt síðustu 5 árin, þrátt fyrir að vera fyrsta gestgjafaþjóðin til að fá 0 stig á heimavelli (allir muna að sjálfsögðu eftir grillinu hans Mozarts).