Ástaróður frá Serbíu


Fulltrúi Serba í Eurovision í ár er Nevena Božović og flytur hún ellefta framlag Serba í keppninni. Í Serbíu hefur söngvakeppnin Beovizija verið haldin síðan 2003 og frá 2007 hefur hún þjónað þeim tilgangi að velja framlag Serba í Eurovision. Tuttugu lög hófu keppni í febrúar og var Nevena valin með eigið lag og texta. Lagið heitir Kruna eða Kóróna og tileinkar hún það kærastanum sínum. Nevana er fædd árið 1994 og verður því 25 ára í sumar. Hún hefur trúlega gengið með Eurovisiondrauminn lengi, en hún tók þátt í Junior Eurovision árið 2007 með lagið Piši mi eða Skrifaðu mér, en hún samdi það líka sjálf. Einnig tók hún þátt í annarri söngvakeppni í Sebíu, Prvi glas Srbije, árið 2013 og hafnaði þá í öðru sæti. Það fer heldur ekki milli mála að hér er mikil hæfileikakona á ferð.

Serbía var lengi hluti af gömlu Júgóslavíu og tók fyrst þátt í Eurovision sem hluti af henni árið 1961. Júgóslavar unnu einmitt keppnina fyrir 30 árum með lagið Rock Me. Serbía varð hluti af Serbíu og Svartfjallalandi árið 1992 og tók fyrst þátt í Eurovision árið 2004 og gerði sér lítið fyrir og lenti í öðru sæti með lagið Lane Moje, samið og flutt af Eurovisionkónginum Željko Joksimović.  Þremur árum síðar, 2007 tók Serbía fyrst þátt í Eurovision sem sjálfstætt ríki og fór þá strax alla leið og sigraði keppnina með lagið Molitva eða Bæn, flutt af Mariju Šerifović. Síðan þá hefur árangurinn verið upp og ofan, en áðurnefndur Željko náði þó 3ja sæti árið 2012 með lagið Nije Ljubav Stvar.