40 ár frá fyrstu keppninni í Ísrael


Eins og flestir ættu að vita verður Eurovisionkeppnin í ár haldin í Ísrael. Í dag eru einmitt 40 ár síðan Ísraelar héldu fyrst Eurovisionkeppnina og var það í fyrsta skipti sem keppnin var haldin utan Evrópu. Hún var haldin í Binyanei Ha´ouma í Jerúsalem 31. mars 1979 og er síðasta keppnin sem haldin hefur verið í marsmánuði hingað til. Kynnar voru Yardena Arazi og Daniel Pe´er. Sviðsmyndin og skemmtiatriði þykja sérstaklega glæsileg miðað við þennan tíma. Til stóð að sömu 20 þjóðirnar kepptu og árið áður, en Tyrkir drógu sig út úr keppninni til að mótmæla olíukreppunni í Ísrael.

Í annað skiptið á sama áratuginum erum við að tala um sigur á heimavelli. Ísraelsmenn unnu annað árið í röð. Í þetta skipti voru það Gali Atari og Milk and Honey sem unnu með lagið Hallelujah. Lagið náði 5. sæti á breska vinsældarlistanum vikuna eftir keppnina. Avigail Atari er fædd árið 1953 og hefur verið í bransanum síðan árið 1970. Hún sendi síðast frá sér efni árið 2014.

Spánverjar urðu í öðru sæti með lagið Su Canciõn eða Söngurinn þinn með Betty Missiego. Með henni á sviðinu voru fjögur börn og er þetta atriði með lægsta meðalaldur keppanda í Eurovision fyrr og síðar. Betty er fædd í Lima í Perú árið 1945 og keppti eitt sinn í söngvakeppni þar í landi. Hún hefur búið á Spáni síðan 1972. Ári síðar tók hún aftur þátt í forvali Spánar fyrir Eurovisionkeppnina en náði ekki að fara til Haag.

Í þriðja sæti varð franska lagið Je Suis L´Enfant Soleil eða Ég er barn sólarinnar með Anne Marie David. Hún keppti áður fyrir Lúxemborg árið 1973, fór þá með sigur af hólmi með lagið Tu Te Reconnaîtras og á enn það met að hafa fengið flest stig hlutfallslega miðað við mögulegan stigafjölda. Ári fyrr eða 1972 sló hún fyrst í gegn í hlutverki Mariu Magdalenu í söngleiknum Jesus Christ Superstar. Anne Marie bjó um tíma bæði í Tyrklandi og Noregi. Anne er fædd í maí árið 1952 og er því að verða löggilt gamalmenni samkvæmt íslenkum lögum.

Önnur skemmtileg Eurovisionlög sem eru núna orðin fertug eru þýska lagið Dschingis Khan með samnefndri gúppu. Það lenti í 4. sæti. Það var enginn annar en yfir-Eurovisionlagahöfundurinn Ralph Siegel sem var umboðsmaður og upphafsmaður að Dschingis Khan. Sama ár sló hópurinn einnig í gegn með laginu Moskau. Hópurinn var starfandi til ársins 1985, tók þá 20 ára hlé og hefur núna verið starfandi síðan 2005.

Ítalska laginu gekk ekkert of vel en þetta er yndisleg perla, Raggio Di Luna með Matiu Bazar sem er tilvalið að rifja upp. Sænska lagið Satellit var fyrsta gervihnattalagið í Eurovision. Það er Ted Gärdestad sem flytur. Tríóið Peter, Sue og Marc voru að keppa í þriðja sinn af alls fjórum fyrir hönd Sviss og í þetta sinn höfðu þau annað tríó með til stuðnings; Pfuri, Grops og Kniri. Lagið heitir Trödler und Co. Þetta er líklega frumlegasta atriðið í keppninni fyrir 40 árum síðan.