Katerine Duska og Better Love halda uppi heiðri Grikklands í Ísrael.


Grikkir hafa á hinum síðari árum verið ein af þeim þjóðum í Eurovision sem alltaf virðist ganga vel. Allt frá því að þeir sigruðu árið 2005 með “My Number One”, hafa þeir nánast undantekningarlaust verið inn á topp tíu. Með örfáum undantekningum þó, því að í fyrra komust þeir ekki einu sinni upp úr undankeppninni með lagið “Oneiro Mou”, sem flutt var af söngkonunni Yiönnu Terzi. Eitthvað fór það illa í Grikkina, því nú settu þeir fítonskraft í val á flytjanda og lagi og niðurstaðan varð söngkonan Katerine Duska og lagið “Better Love”, sem mun veifa gríska fánanum með stolti í Tel Aviv.

Katerina Duska er fædd í Montreal í Kanada fyrir rúmum 29 árum síðan, af grískum foreldrum. Hún flutti aftur til Grikklands fyrir um fimm árum síðan þar sem hún hóf tónlistarferil sinn fyrir alvöru. Hennar bakgrunnur í tónlistinni liggur aðallega í indie poppi og hafa margir líkt rödd hennar við Florence úr Florence and the Machine. Ekki leiðum að líkjast þar! Þrátt fyrir stuttan feril hingað til, virðist Katerina aldeilis hafa heillað framámenn (og konur) hjá gríska sjónvarpinu, því að hún var valin af sérhannaðri dómnefnd innan ERT til að keppa fyrir hönd landsins í Ísrael með lagið “Better Love”, sem samið er af henni sjálfri, Leon of Athens og David Sneddon. Lagið var gefið út opinberlega þann 6.mars síðastliðin og virðist falla ansi vel í kramið hjá aðdáendum og blaðamönnum því Grikkland situr eins og er í 11.sæti hjá veðbönkum. Hvernig mál munu fara í Tel Aviv, á enn eftir að koma í ljós, en þangað til óskum við Katerinu alls hins besta.