Sunnudagsblús frá Rúmeníu til Tel Aviv.


Þann 17. febrúar síðastliðinn ráku Rúmenar endahnút á forkeppnina Selectia Nationala 2019. Eftir æsispennandi lokasprett völdu þeir söngkonuna Ester Peony með lagið “On a Sunday” til að keppa fyrir sína hönd í Tel Aviv í maí

En það var ekki rennt í lygnan sjó í aðdraganda lokakeppninnar, því þrír af upphaflegu keppendunum drógu þátttöku sína til baka. Þar á meðal voru söngvararnir Dan Bittman sem var fulltrúi Rúmena í frumraun þeirra árið 1994 og sykursnúðurinn Mihai Traistariu (sem af einhverjum ástæðum gengur núorðið undir listamannsheitinu         M I H A I) sem flutti lagið “Tornero” sælla minninga árið 2006. Dan bar við þéttskipaðri dagskrá og tímaleysi, en M I H A I vildi meina að TVR væri full hliðholl “ákveðnum” söngvurum í keppninni og að hinir ættu ekki séns, og í slíkum skrípaleik gæti hann ekki tekið þátt. Í þeirra stað komu söngkonurnar Bella Santiago, sem brátt varð svokallað aðdáendaeftirlæti og Linda Teodosiu, sem var ekki alveg jafn mikið eftirlæti en hátt skrifuð engu að síður.

Keppnin í Rúmeníu var með svipuðu sniði og annarsstaðar. Dómnefnd hafði 50% vægi á móti 50% símakosningu og sá keppandi sem hafði hæstu samanlögðu stigatölu eftir báðar kosningar, var titlaður sigurvegari. Sá titill kom í hlut hinnar 24 ára gömlu söngkonu Ester Peony, sem öllum að óvörum hafði á endanum betur en Bella Santiago sem margir, ef ekki allir, höfðu spáð sigri. Eins og venjulega sýndist sitt hverjum um sigurvegarann og vildu margir meina að dómnefndin hefði haft fullmikil völd í vali sínu en TVR var óhagganlegt. Þetta var niðurstaðan og Ester færi til Tel Aviv, hvað sem tautaði og raulaði. Amen.

Ester Peony heitir réttu nafni Ester Alexandra Cretu, og ólst reyndar upp í Montreal fram að 12 ára aldri, þegar hún flutti ásamt foreldrum sínum aftur til Rúmeníu. Hún sýndi ótvíræða hæfileika í tónlist strax sem barn, og hefur nú þegar lokið námi í klassískum söng, klassískum gítar og er við það að klára nám í jazzi. Hún hefur verið þónokkuð eftirsóttur lagahöfundur í Rúmeníu, en öðlaðist sjálf miklar vinsældir þegar hún hóf að gera ábreiður og setja inn á Youtube. Fyrsta lagið sem hún flutti sjálf undir eigin nafni sló í gegn árið 2014 og eftir það varð ekki aftur snúið.

Hvernig  “On a Sunday” á eftir að ganga í vor er enn óljóst, en því getur varla gengið verr en “Goodbye” gekk í fyrra, en það var í fyrsta skipti sem Rúmenar komust ekki upp úr undankeppninni og upphófst mikill grátur og gnístran tanna hjá rúmenska sjónvarpinu í kjölfarið, sem vildi hreinlega breyta öllu sem viðkom forkeppninni til að koma í veg fyrir slíkar ófarir aftur. Jæja já? Æi greyin. San Marínó, Montenegró, Sviss, Makedónía og Ísland brostu nú bara í kampinn við þær fréttir…