Fjöbreytileikinn og jafnréttið fer til Tel Aviv fyrir hönd Noregs


Þá hefur enn eitt lagið verið valið fyrir Eurovision 2019. Hin norska Melodi Grand Prix fór fram síðasta laugardagskvöld og hófst auðvitað á því að sigurvegarinn í fyrra, Alexander Rybak, steig á svið og flutti vinningslag sitt, That’s How You Write A Song, ásamt öðrum sigurlögum sem hafa fært keppnina heim til Noregs.

Aðalatriðið var auðvitað að heyra lögin sem keppa í Melodi Grand Prix í ár.  Það má með sanni segja að þetta hafi verið bland í poka. Þarna mátti sjá dansandi Disney prinsessur, hljómsveitarmeðlimi hver í sínum kassa sem minnti helst á litlar einstaklingsíbúðir, dramatískan dans í kafandi reyk á flótta frá ótta, skemmtilega blöndu af Nettu og Eleni Foureira í einni og sömu manneskjunni, 100 kg mann sem neitar að fara í megrun (að eigin sögn) standa í báða fæturna, vasaljósatriði (öðru nafni símabatterísþjófur) og fyrrverandi kærustu Rybak sem virkar mjög róleg út á við. Þarna mátti líka fylgjast með rokkara sem sló um sig með því að segja að hann velji ekki fötin heldur séu það fötin sem velji hann, fyrirsjáanlegu fatafækkunaratriði, hjartaknúsara sem keypti húsið hans afa síns svo afinn gæti búið þar áfram og hafði í rauninni enga trú á að hann kæmist langt en raunin varð nú önnur. Síðast en ekki síst voru það svo sjálfir sigurvegararnir, sem sungu hver á sinn hátt um fjölbreytileika og jafnrétti.

Norska keppnin í ár var stórt stökk fram á við; bæði var sviðið mjög flott, ljósashowið geggjað og atriðin af fjölbreyttum toga. Áhorfendur gátu greinilega valið um að kaupa stæði eða sæti og það skapaði klárlega meiri stemningu. Eftir að öll lögin höfðu verið flutt á sviði var komið að því að heyra hvaða lög alþjóðadómnefndin gaf 12 stig. D´sound fengu fjórar tólfur, Anna Lisa fékk eina, Mørland fékk eina, Adrian Jorgensen þrjár og Keiino eina.

Nú var komið að því að tilkynna hvað fjögur lög voru efst eftir dómnefndar- og símakosningu. Það reyndust vera Spirit In The Sky, The Bubble, Mr. Unicorn og Holla. Því næst kaus þjóðin tvö af þessum lögum í svokallað gulleinvígi. Stigin úr fyrri kosningu voru núlluð út og hófst kosning að nýju. 

 

 

Á meðan beðið var úrslita var Tor Endresen heiðraður en hann hefur tekið þátt tólf sinnum í Norsk Melodi Grand Prix. Hann sigraði keppnina einu sinni og var fulltrúi Norðmanna árið 1997 þar sem hann flutti lagið San Francisco. Því miður var það ekki heillaför því Noregur fékk enginn stig það árið.  

Eftir kosningu kom í ljós að Adrian og Keiino skyldu há gulleinvígi. Þá hófst enn ein símakosningin, sú síðasta þetta kvöldið, en í þetta skiptið héldu atriðin stigum sínum frá fyrri kosningu. Á meðan beðið var eftir því að vita hver bæri sigur úr býtum kom sigurvegari Eurovision í fyrra fram, hún Netta sem söng vinningslagið sitt Toy.  

 

Að síðustu kom í ljós að Keiino hneppti hnossið. Það kom ekki á óvart þar sem þeim var spáð sigri í ýmsum könnunum fyrir keppnina.