Takk fyrir geggjaða Söngvakeppnishelgi!


Þá eru herlegheitin að baki og ljóst hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision 2019. Það verður ekki annað sagt en að FÁSES hafi hitað rækilega upp fyrir úrslit Söngvakeppninnar 2019 og haldið uppi stuðinu. Föstudaginn 1. mars sl. hélt FÁSES Eurovision karaoke í sal Samtakanna ’78 við Suðurgötu í Reykjavík. Eftir að stjórnarmeðlimir höfðu safnað nýjum lögum inn á hinn dýrmæta harða disk sem geymir Eurovision karaoke FÁSES sungu félagsmenn frá sér allt vit á þessari glimrandi skemmtun. Stjórn FÁSES lét ekki sitt eftir liggja og tróð upp í gervi Daða og Gagnamagnsins með lagið Hvað með það? Var atriðið að sjálfsögðu skírt í höfuðið á tveimur goðsagnakenndum Söngvakeppniskeppendum; Stjórnin og Gagnamagnið.

Flosi Jón Ófeigsson, formaður FÁSES, bauð síðan til Eurovision spinnings og Eurovision zumba í samstarfi við Hleðslu og Reebok Fitness í Holtagörðum. Metmæting var enn einu sinni í Eurovision Zumba þar sem smjörið lak af mannskapnum.

Eftir að hafa skreytt hátt og lágt var blásið til fyrirpartýs á Ölver. Þar hittust FÁSES félagar og nærðu líkama og sál. Eiríkur Hafdal og Steini Bjarka tóku vel valda Eurovision slagara svo viðstaddir gætu hitað raddböndin fyrir átökin. Var þá haldið í Laugardalshöll þar sem RÚV bauð svo sannarlega til veislu. Á úrslitum Söngvakeppninnar tróðu upp Ari Ólafsson sem tók sigurlag sitt frá því í fyrra ásamt Grande Amore í félagi við þá Gissur Pál Gissurarson og Bergþór Pálsson. Einnig steig á stokk Jóhanna Guðrún og hin evrópska Beyoncé, Eleni Foureira. Að lokum kom í ljós eins og öllum er orðið kunnugt að Hatari vann yfirburðasigur í Söngvakeppninni. Eftir úrslit Söngvakeppninnar var síðan aftur skundað á Ölver í eftirpartýið, svokallaðan Euroklúbb. Þar hélt DJ Ohrmeister, en hann er einn allra vinsælasti Eurovision plötusnúðurinn, uppi stuði fram á nótt.

Kærar þakkir fyrir komuna og hlökkum til að sjá ykkur á næsta viðburði FÁSES!