Svíþjóð, keyrum þetta alla leið!

Melodifestivalen

Í kvöld lýkur úrslitum Melodifestivalen sem fyrir mörgum Eurovision aðdáendum er hinn heilagi gral, móðir allra undankeppna fyrir Eurovision. Eftir fjórar undankeppnir þar sem tvö lög komust áfram og eina Andra Chansen keppni, þar sem þau lög sem lentu í 3. og 4. sæti í sinni keppni fengu annan sjens til að komast í úrslitin, er nú loksins komið að úrslitum Melodifestivalen í Friends Arena í kvöld!

Melodifestivalen er með fjóra kynna þetta árið. Ætli aðalástæðan sé ekki sú að ekkert þeirra gat verið viðstatt öll í skiptin. Þetta eru þau Sarah Dawn Finer, Kodjo Akolor, Marika Carlsson og Eric Saade. Sarah Dawn Finer hefur bæði keppt í Melodifestivalen og verið kynnir áður og þarf vart að kynna frekar. Kodjo Akolor er uppistandari og verðlaunaður útvarpsþáttastjórnandi og er þetta í fyrsta skipti sem hann kynnir Melodifestivalen. Marika Carlsson er líka splunkuný í Melodifestivalen og þekkt sem uppistandari og útvarpsþáttarstjórnandi. Hún vonar að fá að taka þátt sem keppandi næst. Og síðast en ekki síst, Eric Saade. Hann þekkja aðdáendur vel enda hefur hann nokkrum sinnum tekið þátt í Melodifestivalen og kom sá og sigraði árið 2011 með laginu Popular og lenti í þriðja sæti í Eurovision það ár. Kynnarnir hafa farið á kostum í Melló þetta árið og við mælum sérstaklega með ísraelsku syrpunni þeirra.

Marika, Eric, Kodjo og Sarah, kynnar Melodifestivalen 2019.

 

Fyrstur á sviðið í úrslitum í kvöld verður Jon Henrik Mario Fjällgren. Hann er sænskur Sami sem fæddur er í Kólumbíu og var ættleiddur af sænskri Sama fjölskyldu, áhugaverður kokteill. Jon Henrik er söngvari og joik-ari (joik er jóðl að hætti Sama) og hefur hann joikað frá unglingsaldri. Hann sigraði í hæfileikakeppninni Talang Sverige árið 2014 og tók fyrst þátt í Melodifestivalen árið 2015 með lagið Jag är fri og lenti í öðru sæti. Hann tók svo aftur þátt tveimur árum seinna með lagið En värld full av strider ásamt söngkonunni Aniniu. Þá lenti hann í þriðja sæti og nú er bara að bíða og sjá hvort hann nái loksins að landa sigri. Jon Henrik er mikill hæfileikamaður og tók þátt í sænsku útgáfunni af Strictly Come Dancing árið 2018 og fór með sigur. Lagið sem hann syngur í ár heitir Norrsken (Goeksegh) sem myndi útleggjast sem Norðurljósaskin á okkar ástkæra ylhýra.

 

Lisa Kristina Ajax kom fram í sænska Idolinu árið 2014 og kom, sá og sigraði. Hún hafði tekið þátt í Lilla Melodifestivalen tveimur árum áður með lagið Allt som jag har og einnig hefur hún tvisvar tekið þátt í Melodifestivalen; árið 2016 með My Heart Wants Me Dead og ári síðar með I Don´t Give A*. Hún heldur sig við tilfinningaflækjur en lagið hennar í ár heitir Torn.

 

Mohombi Nzasi Moupondo á sænska móður en faðir hans er frá Kongó. Fjölskylda hans bjó í Kongó en yfirgaf stríðsþjáð landið og flutti til Stokkhólms þegar hann var 13 ára. Mohombi var í hipp hopp grúppunni Avalon ásamt bróðir sínum Djo Moupondo frá 2000 til 2008 og hlutu þeir afrísku tónlistarverðlaunin Kora Awards sem besta hljómsveitin. Hljómsveitin tók þátt í Melodifestivalen árið 2005 með lagið Big Up en síðar gaf hann út lagið Bumpy Ride sem varð mjög vinsælt um allan heim. Mohombi reynir nú fyrir sér í Melodifestivalen á nýjan leik með lagið Hello.

 

Næst er það glimmerdrottningin Lina Maria Hedlund. Hún hefur oft komið við sögu í Melodifestivalen enda meðlimur í hinu ógleymanlega schlager-bandi Alcazar sem tók þátt árin 2009, 2010 og 2014. En hún hefur einnig tekið þátt með systur sinni, Hönnu Hedlun (2002) og á eigin spýtur (2003). Alcazar hætti árið 2005 en árið 2007 var þeim var boðið að koma fram á viðburði á næturklúbbnum G-A-Y í London ásamt BWO og Army Of Lovers. Linu var boðið þá að stíga á svið með þeim og varð það til þess að Alcazar tók til starfa á ný. Hvað getum við sagt, Blame It On The Disco, hér er hún komin aftur og nú mun hún syngja fyrir okkur lagið Victorious.

 

Bishara Morad er rétt nýorðinn 16 ára en er þó ekki yngsti keppandinn í Melodifestivalen í ár. Hann er fæddur í Sýrlandi og flutti með fjölskyldunni sinni til Linköping þegar hann var 6 ára gamall. Tónlistarkennarinn hans bað hann um að syngja í matsalnum í skólanum árið 2018. Algjörlega grunlaus um hæfileika sína setti hann upptökuna á Youtube og Instagram. Ekki leið á löngu þangað til að Laila Bagge, sem er mjög þekkt tónlistarkona í Svíþjóð, tók hann undir sína vængi. Bishara gaf út lagið Home núna í lok janúar og er nú á leið á sviðið með lagið On My Own í Melodifestivalen 2019.

 

Þá er komið að Önnu Henriettu Bergendahl.  Hún á rætur að rekja til Írlands en er fædd og uppalin í Svíþjóð.  Hún er nú heldur betur vön sviðljósinu og var aðeins 8 ára þegar hún kom fyrst fram. Hún tók þátt í tónlistarþættinum Super Troupers árið 2004 og svo í Idol 2008 og náði þar 5. sæti. En Eurovision-aðdáendur þekkja hana að sjálfsögðu helst frá árinu 2010 þegar hún sigraði í Melodifestivalen með lagið This Is My Life og varð þess vafasama heiðurs aðnjótandi að komast ekki í úrslitin en það er í fyrsta og eina skiptið sem Svíar hafa ekki komist í úrslit eftir að undankeppnunum var komið á.  Lagið sem hún syngur í ár heitir Ashes To Ashes.

 

Nano Omar, sem er best þekktur sem Nano, er bæði söngvari og lagahöfundur. Faðir hans er frá Palestínu og móðir hans er frá Álandseyjum en frá 12 ára aldri ólst hann upp á fósturheimili. Þegar móðir hans heimsótti hann í fyrsta skipti á fósturheimilið gaf hún honum hljóðgervil sem varð til þess að Nano leiddist út í tónlist. Hann tók samt smá hliðarspor þegar hann var 18 ára og hafnaði í fangelsi og svo aftur þegar hann var 21 árs. Á sama tíma frétti hann að hann ætti von á barni og þá ákvað hann að halda sig frekar við tónlistina en glæpabrautina. Í dag á hann fjögur börn og er farsæll tónlistarmaður. Hann tók þátt í Melodifestivalen fyrir tveimur árum og lenti þá í öðru sæti með lagið Hold On. Hann var ekki langt frá því að hreppa farseðilinn til Úkraínu því hann sigraði í símakosningunni. Nú freistar hann gæfunnar á ný með lagið Chasing Rivers.

 

Hanna Alma Beata Ferm og LIAMOO eru næst. Hanna tók þátt í Talang Sverige árið 2014 og Idol árið 2017 þar sem hún lenti í öðru sæti. Hún gaf út sitt fyrsta lag árið 2018, Never Mine, og kom fram í Idol 2018 þar sem hún söng dúett með Braga Bergssyni (en hann er einmitt fæddur sama dag og greinarhöfundur). Liam Cacatian Thomassen kallar sig LIAMOO. Hann sigraði í Idol árið 2016 eftir að hafa verið tekinn inn í keppnina sem wildcard. Þetta er í annað skiptið sem hann tekur þátt í Melodifestivalen því hann keppti einnig í fyrra með lagið Last Breath og lenti þá í 6. sæti. Hanna og LIAMO færa okkur lagið Hold You.

 

Malou Trasthe Prytz er fædd 6. mars 2003 og þar af leiðandi yngsti keppandinn í ár, heilum 42 dögum yngri en Bishara. Hún byrjaði að syngja þriggja ára gömul og keppti fyrst þegar hún var níu ára og sigraði m.a. bæði í Lilla Song Contest í Östersjöfestivalen í Karlshamn og Stjärnskott í Trelleborg.  Í frítíma sínum spilar hún innibandí. Hún syngur lagið I Do Me.

 

John Hassim Lundvik er talinn sigurstranglegastur í Melodifestivalen í ár. Hann fæddist í London og var ættleiddur aðeins viku gamall af sænsku pari. Hann flutti þó ekki til Svíþjóðar fyrr en hann var sex ára gamall. Hann hefur heldur betur gert garðinn frægan með því að semja lög fyrir kvikmyndir og brúðkaup Victoríu krónprinsessu. (Fyrir áhugasama má geta þess að pabbi Victoríu, sjálfur Karl Gústaf Svíakonungur, á líka sama afmælisdag og greinarhöfundur.) John Lundvik sló eftirminnilega í gegn í Melodifestivalen í fyrra með lagið My Turn og lenti í þriðja sæti. Í ár er hann þegar búinn að sigra í einni undankeppni því hann samdi lagið Bigger Than Us sem Michael Rice mun syngja fyrir hönd Bretlands í Eurovision í ár. Sjálfur mun hann syngja lagið Too Late For Love. Hann og Friðrik Ómar ættu kannski að bera saman bækur sínar…

 

Næstsíðust á svið er Wiktoria Vendela Johansson. Hún kom fyrst fram í Lilla Melodifestivalen árið 2011 og lenti í 4. sæti með lagið Jag behöver dig sem hún samdi sjálf. Hún tók fyrst þátt í Melodifestivalen árið 2016 og lenti aftur í 4. sæti með lagið Save Me. Ári síðar reyndi hún fyrir sér aftur en lenti þá 6. sæti með lagið As I Lay Me Down. Í þetta skiptið flytur hún okkur lagið Not With Me og ögrar eðlisfræðinni skemmtilega með hressilegri sturtu á sviðinu, beint ofan á hljóðnemann sem er, vel að merkja, ekki þráðlaus!

 

Svíar kunna svo sannarlega að setja upp gott partý. Rúsínan í pylsuendanum er hljómsveitin Arvingarna og gleðjast þá Eurovision aðdáendur gríðarlega. Arvingarna slógu rækilega í gegn með laginu Eloise árið 1993 þegar þeir voru fulltrúar Svía í Eurovision í Millstreet á Írlandi. Og þeir hafa sko engu gleymt!  Þeir hafa oft tekið þátt í keppninni en snúa nú aftur í fyrsta sinn síðan árið 2002. Í undankeppninni voru félagarnir ekki með fullskipað lið því Tommy Carlsson var upptekinn í stórafmæli með fjölskyldunni. Ekki reyndist unnt að leyfa þeim að keppa í annarri undankeppni en sem betur fer komust Arvingarna í Andra Chansen og þá mætti Tommy, sprækur sem lækur, og flutti lagið I Do með félögum sínum, þeim Casper, Lasse og Kim. Þess má geta að Arvingarna halda upp á 30 ára afmæli í ár og nú er stóra spurningin hvort sænska þjóðin segir I Do Too og gefur þeim miða til Tel Aviv.

 

Í kvöld kemur í ljós hver hreppir stóra söngfuglinn (Den stora Sångfågeln) í verðlaun fyrir fyrsta sætið. Úrslitin verða ákveðin með símakosningu, kosningu í mellóappinu og alþjóðlegri dómnefnd. Í alþjóðlegu dómnefndinni sitja fulltrúar Frakka, Portúgala, Ástralíubúa, Austurríkismanna, Kýpverja, Finna, Breta og Ísraelsbúa. Veðbankar veðja á sigur John Lundvik og lagið Too Late For Love en í öðru sæti hjá þeim er Hanna Ferm og Liamoo með lagið Hold You. Hvernig sem fer er ljóst að það verður mikil veisla og munu Dana International og Charlotte Perrelli koma fram. Margir aðdáendur gleðjast líka örugglega yfir því að “talskona” EBU, Lynda Woodruff, hyggur á endurkomu!

ps.  Greinarhöfundur er fæddur 30. apríl.