Darude fer með Look Away til Tel Aviv


Eins og dyggir lesendur FÁSES.is vita var EDM snillingurinn Darude (borið fram Darúd) valinn til að fara til Tel Aviv fyrir hönd Finna þetta árið. Um síðustu helgi fór undankeppnin þeirra UMK fram þar sem valið var milli þriggja laga sem framlag Finnlands í Tel Aviv. Ekkert vantaði upp á glæsilega umgjörð UMK eins og síðustu ár og var mikið lagt í leikmynd og sviðsetningu allra þriggja laganna. 

Mynd: YLE.

Okkar ástkæra Krista Siegfrids opnaði keppnina með þvi að taka syrpu af lögum þar á meðal finnska útgáfu af Toy með Nettu og Sandstorm, frægasta danssmell Darude. Hófst þá lagarennslið en með Darude á sviðinu í öllum lögunum var söngvarinn Sebastian Rejman sem m.a. hefur starfað með finnsku hljómsveitinni The Giant Leap. Fyrsta lagið sem þeir félagar fluttu var Release Me sem fjallar um álagið við að vera alþjóðleg súperstjarna og baráttu Darude við að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Sjálfur reynir Durude að vera ekki fjarverandi frá börnunum sínum tvær helgar í röð.

Næsta lag var Superman sem hyllir hverdagshetjur barnanna og er því pínulítið í sama þema og Release Me. Af viðtökunum í salnum að dæma féll Superman aðdáendum vel í geð.

Þriðja lagið hefur hnattrænan boðskap og hvetur okkur til að horfa ekki fram hjá stríðsátökum og erfiðum umhverfismálum þó það sé oft þægilegra. Á sviðinu í Look Away stóð Darude í kassa sem hafði þrjár hliðar þar sem myndum af bráðnandi jöklum var varpað á. Ofan á kassanum var einn dansari sem túlkaði merkingu lagsins.

Atkvæði almennings vógu 50% á við atkvæði alþjóðlegrar dómnefndar. Finnar hafa greinilega lært eitthvað af nágrönnum sínum Svíum því í ár gat almenningur kosið í gegnum sérstakt app, ásamt hefðbundinni símakosningu. Á meðan beðið var úrslita tróð Emmelie de Forest upp með vinningslagi sínu frá 2013, Only Teardrops.

Alþjóðlega dómnefndin samanstóð af þekktum einstaklingum úr Eurovision samfélaginu; William Lee Adams frá Wiwibloggs sem var fulltrúi Bretlands, Tali Eshkoli viðburðarstjóranum knáa frá Ísrael, JOWST sem var fulltrúi Norðmanna í Eurovision 2017, Ana Maria Bordas Julve fararstjóra spænska ríkissjónvarpsins, Jan Bors farastjóra tékkneska ríkissjónvarpsins, sænska lagahöfundinum Gabriel Alares, Michael Kealy fararstjóra írska ríkissjónvarpsins og danska Eurovision sigurvegaranum Emmelie de Forest. Lagið Look Away fékk tólfu frá öllum fulltrúm dómnefndarinnar. Í almenningskosningunni varð lagið Release Me í 3. sæti, Superman í 2. sæti og Look Away hreppti 1. sæti eins og hjá dómnefndinni. Í lok kvölds var því ljóst að Look Away hafði unnið yfirburðasigur.

Mynd: YLE.

Þegar þetta er skrifað er Darude og Look Away í 29. sæti veðbanka. Við vonum að þetta ágæta klúbbalag fái meiri meðbyr því svo sannarlega hefur Darude mikinn stuðning meðal EDM aðdáenda!