John Lundvik og “Aldrei of seint fyrir ástina” til Tel Aviv


Þá eru litlu jólin búin en fyrir mörgum Eurovision aðdáendum er Melodifestivalen einmitt það, upphitun fyrir aðalkeppni Eurovision í maí. Úrslitakeppni Melodifestivalen sem haldin var í Friends Arena í Stokkhólmi í gærkveldi var svo sannarlega glæsileg sjónvarpsútsending. Í forrétt fengum við Benjamin Ingrosso og Felix Sandman í skemmtilegum dúett og á meðan pakkarnir 12 komu sér fyrir undir “jólatréð” söng Benjamin All Night Long sem Lionel Richie gerði frægt á sínum tíma.  Kynnarnir fjórir, Sarah, Kodjo, Eric og Marika, voru í sínu fínasta pússi og litu glæsilega út. Aðrir gestir í Friends Arena höfðu líka klætt sig upp fyrir þessa gleðistund.  

Marco Luise úr sérfræðingapanel FÁSES fór í sitt fínasta púss

Marco Luise úr sérfræðingapanel FÁSES fór í sitt fínasta púss

Það var við hæfi að Jon Henrik Fjällgren, með lagið Norrsken, lyki sínu atriði með fallegu sambandi á milli hreindýrs og Sama. Lisa Ajax var önnur á sviðið með dramatíska lagið sitt Torn og skilaði því mjög vel frá sér. Mohambi kom svo með lagið sitt Hello. AHA stíllinn var ekki að gefa greinarhöfundi neina AHA upplífun og það var ábyggilega ekki auðvelt að dansa í takt við sjálfan sig. Þar næst kom Lina Hedlund með lagið Victorious í ekta Alcazar schlager-stíl og núna var veislan byrjuð fyrir alvöru. Nýstyrnið Bishara steig næst á sviðið með lagið On My Own. Hann er efnilegur söngvari og á eflaust eftir að gera það gott í framtíðinni. Fyrri hálfleik lauk með Önnu Bergendahl og laginu Ashes to Ashes. Anna var stórglæsileg – ef frá er talið hárið hennar. Senan minnti helst á Titaniu í Draumi á Jónsmessunótt.

Á milli atriða tróð hin ótrúlega skemmilega talskona EBU, Lynda Woodruff, upp en hún skáldpersóna sem er túlkuð af einum kynninum, Söruh Dawn Finer, og er í dálæti hjá flestum Eurovision aðdáendum.

Nú var komið að Nano með lagið Chasing Rivers. Lagið byrjaði í rauninni ekki fyrr en bakraddirnar komu inn í lokin og þá var lagið að verða búið. Þá var komið að eina parinu í keppninni, Hönnu Ferm og LIAMOO með lagið Hold You sem er hugljúft og fallegt kraftballaða en það eru mismunandi skoðanir á því hvað sviðssetningin minnti helst á. Yngsti keppandi Melodifestivalen, Malou Prytz, steig næst á sviðið með lagið I Do Me, ekta Glee atriði í anda Clueless. Þá var komið að stærsta pakkanum, sigurstranglegasta keppandanum, John Lundvik og Too Late for Love og flutti hann lag sitt af miklu öryggi. Wiktoria var næstsíðust á sviðið með lagið Not With Me, áhrifamikið lag og flott sturtu- eða rigningaratriði. Síðastir og elstir á sviðið voru svo Arvingarna með lagið I Do. Þeir sýndu að þeir hafa sko engu gleymt og komu ótrúlega sterkir inn í keppnina með sinn dansibandsstíl. 

Þá var búið að opna alla pakkana undir jólatrénu og spennan jókst í salnum. Meðan beðið var eftir úrslitum dómnefndar fengum við að sjá dansatriði þar sem sigurlag síðasta árs, Dance You Off, var túlkað með dansi.

Í úrslitum Melodifestivalen gilda stig alþjóðlegu dómnefndarinnar til jafns við stig almennings. Í alþjóðlegu dómnefndinni í ár sátu fulltrúar Frakka, Portúgala, Ástralíubúa, Austurríkismanna, Kýpverja, Finna, Breta og Ísraela. Það er skemmst frá því að segja að John Lundvik og lagið Too Late For Love fékk svokallaða alslemmu frá alþjóðlegu dómnefndinni, hvorki meira né minna en átta tólfur. Á meðan beðið var úrslita úr símakosningunni var boðið upp á sannkallað dívuatriði með Charlotte Perrelli og Dönu International. Þær sungu sigurlögin sín frá 1998 og 1999 ásamt nýju lagi, Diva To Diva.

Þá var komið að því að opinbera úrslit símakosningarinnar. John Lundvik fékk líka 12 stig frá þjóðinni sem gaf honum samtals 181 stig og verður hann því fulltrúi Sviþjóðar í Tel Aviv í maí. Þess má geta að Bishara og Hanna Ferm og LIAMOO deildu 2. sætinu með 107 stig. Gaman er að geta þess að John Lundvik er einnig höfundur breska Eurovision lagsins í ár og því verður hann “tvöfaldur í roðinu” í Tel Aviv!

Þá er bara að bíða eftir sjálfum aðfangadegi Eurovision hátíðarinnar í Tel Aviv í maí.

Gleðilegar júóstundir.