Hollendingar senda nýstirni í Eurovision


Hinn 24 ára gamli Duncan Laurence, söngvari, lagahöfundur og framleiðandi, verður fulltrúi Hollands í Eurovision í vor en hollenska ríkissjónvarpið valdi hann sérstaklega til verksins. Duncan flytur lagið Arcade eftir Joel Sjöö, Wouter Hardy og hann sjálfan. Duncan er nýlega útskrifaður frá rokk akademíunni í Tilburg í Hollandi og er víst ekki mjög þekktur þar í landi (það er alltaf frábært þegar unga fólkið fær tækifæri!).

Lagið Arcade er ballaða sem fjallar um leitina að stóru ástinni og vonina sem stundum er óáþreifanleg. Duncan vill gjarnan hreyfa við fólki með tónlist sinni, mögulega hjálpa og gefa af sér. Lagið Arcade er í raun ráð sem hann gefur sjálfum sér og vonandi öðrum áheyrendum í leiðinni. Lífslexían er eins og ávallt; við sköpum okkar eigin hamingju. Það er gaman að geta þess að Ilse DeLange úr The Common Linnets (Eurovision 2014, 2. sæti) mun aðstoða Duncan við að færa atriðið sitt upp á svið. Hún og Duncan eru víst ágætir félagar eftir þátttöku hans í The Voice of Holland 2014 þar sem Ilse var þjálfarinn hans.

Laginu Arcade var strax vel tekið af aðdáendum Eurovision þegar það var fyrst opinberað fyrir nokkrum dögum. Duncan kom fram í spjallþætti í hollenska sjónvarpinu um liðna helgi og flutti lagið sitt live. Það verður ekki annað sagt en að honum takist vel upp með þessa viðkvæmu en áhrifamiklu rödd. Þegar þetta er skrifað er hann kominn í fyrsta sæti veðbankanna og hefur velt rússnesku goðsögninni Sergey Lazarev úr sessi. Við verðum að sjá hvernig Duncan gengur í seinni undankeppninni 16. maí nk.

Hollendingar hafa unnið Eurovision alls fjórum sinnum; með Net als Toen 1957 sem Corry Brokken söng, með Een Beetje árið 1959 sem Teddy Scholten vann með og með laginu De troubadour 1969 sem Lenny Kuhr söng. Það er ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að besta vinningslag Hollendinga sé Ding-A-Dong frá 1975 með Teach In. Eftir það hefur þetta verið hálfgerð eyðimerkurganga hjá þeim elskunum ef frá er talið 2. sæti sem The Common Linnets náðu í Kaupmannahöfn árið 2014 með Calm after the storm.