Hin armenska Srbuk fer með “Walking Out” til Ísrael.


Armenar hafa jöfnum höndum valið keppendur sína innbyrðis sem og í gegnum forval sitt Depi Evratesil. Í fyrra sigraði vöðvabúntið Sevak Khanagyan þá keppni en komst svo ekki upp úr forkeppninni í Lissabon með kraftballöðuna sína Qami sem sungin var á því gullfallega tungumáli sem armenska er. Í ár ákvað AMPTV að velja innbyrðis og tilkynnti strax í nóvember að fyrir valinu hefði orðið söngkonan Srbuk (borið fram Serbuk) en hún mun flytja lagið Walking Out í Tel Aviv í maí.

Þetta er sannkallaður baráttusöngur og lýsir hetjulegri framgöngu konu sem hefur fengið sig fullsadda af ofbeldisfullu sambandi og tekur þá ákvörðun að safna loksins kjarki til að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og labba hreinlega út. Fyrsta brot úr myndbandinu og laginu var gefið út þann 8.mars sl, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna og á bæði lag og texti svo sannarlega vel við þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur í málefnum kvenna undanfarin ár.

Srbuk heitir réttu nafni Srbuhi Sargsyan og er fædd í Yerevan árið 1994. Hún er engin nýgræðingur á tónlistarsviðinu, en hún sló fyrst í gegn í heimalandinu árið 2010, þá einungis 16 ára að aldri eftir að hafa lent í öðru sæti í X Factor: Armenia. Seinna meir lá leið hennar til Úkraínu í raunveruleikaþáttinn The Voice of Ukraine, þar sem hún lenti í 4. sæti. Síðan hefur Srbuk átt góðu gengi að fagna í heimalandinu, bæði á eigin vegum, sem og meðhjálpari annarra virtra tónlistarmanna í Armeníu. Textahöfundur Walking Out, Garik Papoyan hefur áður komið við sögu í Eurovision, en hann var einn af höfundum lagsins Not Alone sem Aram MP3 keppti með í Kaupmannahöfn 2014 og náði 4. sæti, sem er annar besti árangur Armeníu í keppninni til þessa. Hvort Srbuk takist að slá það met vitum við ekki, en það verður óneitanlega spennandi að sjá hvernig hún mun tækla sviðið í Tel Aviv.