Tamta til Tel Aviv með Replay.


Kýpverjar komu, sáu og sigruðu næstum því þegar hin sjóðheita og seiðandi Eleni Foureira kom litlu eyþjóðinni alla leið í annað sætið í Lissabon í fyrra með laginu “Fuego“. Kýpur á ansi margt sameiginlegt með okkur Íslendingum í Eurovision. Báðar þjóðir hafa verið með í meira en 30 ár, án þess að takast að landa sigri og báðar þjóðir hafa hæst komist í annað sætið og þá með sólósöngkonum. Þar sem að þeir fundu uppskriftina að fullkomnum júróvisjónslagara í fyrra, hefur CyBC (Cypriot Broadcasting Corporation) ákveðið að endurtaka leikinn með því að ýta á endurspilunartakkann og senda söngkonuna Tömtu með lagið “Replay”.

Tamta heitir fullu nafni Tamta Goduadze og er reyndar fædd og uppalin í Georgíu. Hún er 38 ára gömul og flutti til Grikklands einungis tvítug að aldri og vann láglaunastörf til að sjá fyrir sér og ungri dóttur sinni, allt þar til hún fékk stóra tækifærið í raunveruleikaþáttunum Super Idol, þar sem hún endaði í öðru sæti og fékk í kjölfarið samning við eina af stærstu tónlistarútgáfum Grikklands og hefur átt farsælan feril upp frá því, sem söngkona, sjónvarpskona og dómari í ýmiskonar raunveruleikaþáttum líkt og X-factor:Grikkland.

En af einhverjum ástæðum hefur Tamta samt alltaf bundist Kýpur sterkum böndum og við getum horft alla leið aftur til ársins 2008, en þá viðraði hún í fyrsta skipti löngun sína að keppa fyrir hönd Kýpur í Eurovision. En fólk þar á bæ var greinilega svolítið lengi að kveikja á perunni, því það var ekki fyrr en í fyrra sem henni bauðst að fara fyrir hönd landsins, einmitt með áðurnefnt “Fuego”, en þar sem Tamta var með fremur þéttskipaða dagskrá, gat hún ekki orðið við þeirri bón þá. En nú var hún með nóg pláss á dagatalinu sínu, og í desember 2018 tilkynnti CyBC að þeir hefðu valið hana til þátttöku fyrir Kýpur með lagið “Replay”, sem er samið af Alex P, manninum á bakvið “Fuego”. Hvort það virkar að ýta á endurspilun á eftir að koma í ljós, en lagið er af sama bergi brotið og lagið hennar Eleni, það er suðrænt og seiðandi og á eflaust eftir að falla vel í kramið hjá dansþyrstum Eurovision aðdáendum.