Sevak sigrar Depi Evratesil í Armeníu.


Eins og áður hefur komið fram, var síðastliðin helgi algjör veisla fyrir Eurovision aðdáendur, því að heil sjö ný framlög litu dagsins ljós. Við erum búin að fara yfir sex þeirra, og nú er komið að Armenum.

Armenar þreyttu frumraun sína í Eurovision árið 2006 í Aþenu, þegar að André mætti með lagið “Without your love” og ansi skrítin sviðsbúnað, en svo virtist sem hann væri í nettu teygjutvisti við bakraddirnar sínar og dansara. André átti stórleik og endaði í 8. sæti. Samkvæmt reglum EBU á þeim tíma, tryggði hann þar með Armeníu fastan sess í aðalkeppninni árið eftir. Armenar hafa alltaf komist í aðalkeppnina að undanskildu árinu 2011, þegar að Emmy sat eftir í undankeppninni, öllum að óvörum. Sumir segja að Vinir Sjonna hafi farið áfram á hennar kostnað en við blásum nú bara á svoleiðis tröllasögur! Það ár sigraði Azerbaijan, og vegna langvarandi úlfúðar og leiðinda á milli landanna tveggja, ákvað armenska sjónvarpið að draga sig úr keppni árið eftir. En landið kom ferskt til leiks árið 2013 og hefur átt ágætis gengi að fagna í 11 ára sögu sinni í keppninni og hafa hæst komist í 4. sæti, bæði árið 2008 og 2014.

Á sunnudagskvöldið fór fram forkeppni Armena, Depi Evratesil sem þýða má lauslega sem “Leiðin á Eurovision”. Tíu lög kepptu um fyrsta sætið, eftir tvær undankeppnir, sem margir aðdáendur og blaðamenn lýstu sem “blóðbaði”, vegna þess hve gríðarlega sterkar þær þóttu og erfitt að segja til um hver yrði hlutskarpastur. Og það var greinilega engin miskunn gefin, því að aðdáendauppáhaldið Tamar Kaprelian, sem margir muna kannski eftir úr sönghópnum Genealogy frá árinu 2015, komst ekki áfram, og allt varð gjörsamlega vitlaust á samfélagsmiðlum, og fór Tamar sjálf mikinn, þar sem hún hélt því fram að sambandsleysi hafi verið í símakerfinu og því hefði ekki helmingur aðdáenda hennar náð að hringja inn og kjósa. Hátt hanga þau og súr eru þau? En hitt uppáhaldið í Depi Evratesil, ofurhressa dragdrottningin Kamil Show, sigldi beint inn í úrslitin og þótti í kjölfarið sigurstranglegust með súrrealíska latínópoppið sitt “Puerto Rico” sem einhver lýsti sem Despacito á E-pillu trippi. Svo vissir voru aðdáendur um sigur hennar, að keppnin þótti vera aukaatriði. En stundum klikka áætlanir.

Það var söngvarinn Sevak Khanagyan sem gerði sér lítið fyrir og trítlaði beint í fyrsta sætið, með hið kraftmikla lag “Qami” en lagið er sungið á armensku, og verður þetta í fyrsta skipti sem Armenar flytja sitt framlag algjörlega á móðurmálinu. Tími til kominn, því armenska er gríðarlega flott tungumál. Sviðsetning lagsins minnir um margt á Salvador Sobral, því Sevak tók þetta á einfaldleikanum, og lét lagið og andrúmsloftið ráða för. Stigagjöfin réðist af 50% vægi alþjóðlegrar dómnefndar (sem að innihélt m.a Felix Bergsson, sagði lítill fugl okkur) og 50% vægi símakosningar, og var ekkert verið að flækja hlutina neitt, þar sem að gefin voru einfaldlega stig frá 1 og upp í 12. Kamil Show var vægast sagt ekki að heilla dómnefndina, því hún var í næst neðsta sæti þar, með einungis 2 stig, og um leið varð ljóst að til Lissabon væru hún og tútúpilsið hennar ekki að fara. Hún tók því nú með stóískri ró. Það leið ekkert yfir hana eða neitt! En Sevak hinsvegar vann bæði dómnefndarkosninguna og símakosninguna og hlaut sínar tólfur frá báðum, og telst því öruggur sigurvegari Depi Evratesil. Í fyrra komst Artsvik áfram í aðalkeppnina í Kænugarði, en þurfti að endingu að láta sér lynda 18. sætið. Tekst sjarmaboltanum Sevak að gera betur í ár? Dæmi nú hver fyrir sig, en okkur finnst þetta bara skrambi flott. Nú þarf gaukurinn bara að slaufa þessu gervi-vöðvavesti áður en hann kemur til Lissabon og þá erum við alveg að tala saman!