Saara Saara Saara – Eurovisiondraumur Finna rætist


Síðasta haust tilkynnti YLE, finnska ríkissjónvarpið, að þau hefðu valið hina þrítugu Söru Aalto til að vera fulltrúi Finna í Eurovision 2018. Saara þessi er nokkuð þekkt meðal Eurovision aðdáenda. Hún hefur tvisvar sinnum lent í öðru sæti  Uuden Musiikin Kilpailu (UMK), undankeppni þeirra Finna. Fyrst árið 2011 með lagið Blessed with Love og síðan 2016 með lagið No fear. Sara lenti einnig í öðru sæti í The Voice of Finland árið 2012 og er meðal annars þekkt fyrir að tala inn á teiknimyndir, t.d. fyrir Önnu prinsessu í Frozen. Saara öðlaðist aftur á móti heimsfrægð með þátttöku sinni í The X Factor UK árið 2016 þar sem hún, jú þið giskuðu rétt, lenti í 2. sæti. Þar gerði Saara garðinn frægan m.a. með því að taka lag Bjarkar Guðmundsdóttur, Oh So Quiet. Nú er svo sannarlega komið að upprisu okkar konu í Eurovision í Lissabon og ljóst að miklar væntingar eru gerðar til þessarar hæfileikaríku söngkonu.

Finnar hafa eins og Íslendingar ekki riðið feitum hesti frá Eurovision undanfarið þrátt fyrir að hafa sigrað keppninni eftirminnilega árið 2006 með Hard Rock Hallelujah Lordi skrímslanna frá Rovaniemi. Síðustu þrjú árin hafa þeir ekki komist upp úr undankeppninni og besti árangur þeirra síðustu tíu árin er 11. sæti Softengine drengjanna árið 2014.

Fyrirkomulag UMK í ár er því nokkuð breytt frá því sem aðdáendur þekkja það fyrst nú þegar er búið að velja flytjanda Eurovision framlags Finna árið 2018. Í stað nokkurra undankeppna mun Saara flytja þrjú lög í einni úrslitakeppni. Fyrsta lagið sem Saara flytur var tilkynnt 8. febrúar sl., heitir Monster og er eftir söngkonuna sjálfa, Joy Deb, Linnea Deb, Ki Fitzgerald en margir ættu að kannast við Joy og Linnea enda hafa þau staðið á bak við margan Melodifestivalensmellinn. Linnea Deb og Joy Deb eru að auki lagahöfundar hetjanna hans Måns Zelmerlöw frá 2015. Monsters stefnir hraðbyri í að verða þjóðsöngur alls hinsegin fólks enda myndbandið við lagið mjög kynsegin. Það hvarflar jafnvel að hlustandanum að Saara sé að gera upp fortíðina enda ekki langt síðan hún kom út úr skápnum sjálf.

Annað lag Söru sem var tilkynnt 15. febrúar sl. er Domino eftir Thomas G: son, Bobby Ljunggren, Johnny Sanchez, Will Taylor og Söru Aalto en Thomas G: son er að sjálfsögu maðurinn á bak við Euphoria smellinn hennar Loreen. Domino fjallar um þessa yfirþyrmandi tilfinningu þegar maður verður ástfanginn upp fyrir haus.

Þriðja lagið sem var birt 22. febrúar sl. heitir Queens og er eftir Farley Arvidsson, Charlie Walshe, Tom Aspaul og Söru Aalto. Það má segja að sama þema ríki í Queens og í Monsters, lagið fjallað um að leggja að baki fortíðina og gera hlutina eftir sínu höfði.

Meðal Eurovision aðdáenda er morgunljóst að Monsters ber höfuð og herðar yfir hin lögin sem Saara mun flytja í Uuden Musiikin Kilpailu. Það er líka mest spilaða lagið, af þessum þremur, það er að segja, í finnska útvarpinu. Hvort það verður lagið sem verður fyrir valinu kemur í ljós laugardaginn 3. mars nk. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með keppninni hjá finnska ríkissjónvarpinu, YLE, en hún verður haldin í Espoo Metro Arena og byrjar kl. 17 að íslenskum tíma. Lagið verður valið með símakosningu almenningu og aðstoð alþjóðlegrar dómnefndar og þegar hefur verið tilkynnt að Melanie C úr Spice Girls kemur fram.

Búningar Söru fyrir laugardaginn, frá vinstri: Monsters, Domino og Queens.