Eesti Laul: Fjölbreytt úrslitakeppni hjá Eistum í ár


Eistar virðast vera mikil Eurovision-þjóð ef marka má vinsældir Eesti Laul, eistnesku forkeppnarinnar, í heimalandinu. Keppnin hefur þó ekki síður vakið mikla athygli utan landssteinanna og hefur í einhvern tíma verið ein af vinsælustu, og ef ekki með þeim metnaðarfyllstu forkeppnum í Eurovision, og er það margur aðdáandinn sem bíður spenntur eftir keppninni ár hvert.

Gengi Eista í Eurovision hefur þó verið upp og ofan síðan þeir hófu þátttöku árið 1994. Frumraunin vakti ekki mikla lukku og endaði í næst síðasta sæti, en það var lagið “Nagu Merelaine” sem flutt var af Silvi Vrait. Næstu framlög áttu þó eftir að hljóta betri hljómgrunn þar sem Eistar náðu að halda sér í og í kringum topp 10. Það var svo árið 2001 sem Eistar stóðu uppi sem sigurvegarar, en það voru stuðboltarnir Tanel Padar og Dave Benton sem sigruðu hjörtu Evrópubúa ásamt dansandi bakraddahópnum 2XL með laginu “Everybody“.

Árin eftir sigurinn áttu ekki eftir að vera mjög gjöful, en Eistum mistókst að komast í úrslitin 5 ár í röð og frá 2009 hefur þeim einungis tekist að komast í úrslitin í 5 skipti af 9. Við höfum ekki fengið að njóta nærveru þeirra í úrslitunum síðustu tvö árin, en síðasta úrslitalag þeirra var lagið “Goodbye to Yesterday” með þeim Stig Rästa og Elinu Born sem náði 7. sætinu árið 2015.

Eistar missa þó ekki móðinn, frekar en við Íslendingar, og halda enn eina metnaðarfullu forkeppnina í ár. Keppnin er þannig að uppsett að haldin voru tvö undankvöld, þann 10. febrúar og 17. febrúar, þar sem 10 lög kepptu hvort kvöld um 5 laus sæti í úrslitakeppninni. Það munu því vera 10 lög sem keppast sín á milli um flugmiðann til Lissabon þann 3.mars. Fyrir utan smá mun á fjölda laga hljómar þetta nú bara ansi líkt okkar eigin Söngvakeppni.

Lögin 10 sem keppast um hituna eru eftirfarandi:

1. Karl-Kristjan & Karl Killing (ft. WATEVA) – “Young
2. Eliis Pärna og Gerli Padar “Sky” 
3. Nika – “Knock Knock
4. Sibyl Vane “Thousand Words” 
5. Stig Rästa “Home” 
6. Vajé “Laura (Walk With Me)” 
7. Elina Nechayeva “La forza” 
8. Frankie Animal “(Can’t Keep Calling) Misty
9. Iiris & Agoh “Drop That Boogie” 
10. Evestus “Welcome To My World

Mikil fjölbreytni er í lagavali hjá Eistum í ár. Má í keppninni meðal annars finna Disney-skotin kvendúett, óperu á ítölsku, gothara-rokk með dragdrottningum í bakröddum, unglingapopp, næntís-slegið indie-rokk, sérviturt hip-hop og heimilislegt þægindapopp.

Í hópnum má finna tvo góðkunningja Eurovision. Gerli Padar, annar helmingur dúettsins sem flytur lagið “Sky”, tók þátt fyrir hönd Eista árið 2007 er keppnin var haldin í nágrannalandi þeirra Finnlandi. Flutti hún lagið “Partners in Crime” en seint verður hægt að segja að hún hafi riðið feitum hesti frá Helsinki þar sem Gerli endaði með 33 stig í 22. sæti, af 24 lögum. Gerli var því frekar langt frá því að feita í fótspor bróður síns, hans Tanel Padar, sem vann allt heila klabbið árið 2001, mörgum enn til þó nokkurrar furðu. Sigur hans og félaga hans er enn í dag eini sigur Eista í keppninni.

Við fáum að sjá á laugardaginn hvort hún fær annað tækifæri til að jafna bróður sinn.

Hinn góðkunninginn er mörgum eflaust ferskur í minni, en það er hjartaknúsarinn Stig Rästa. Hann samdi og flutti framlag Eista árið 2015, “Goodbye to Yesterday”, ásamt þokkadísinni Elina Born, en myndband af því framlagi má sjá hér að ofan. Einnig var Stig höfundur framlags Eista árið 2016, “Play” sem var flutt af unga herramanninum Jüri Pootsmann. Því gekk nú ekki aldeilis jafn vel og fyrirrennaranum árið áður, en Eistar enduðu í seinasta sæti í fyrri undankeppninni með einungis 24 stig. Skandall að mati pistlahöfundar.

Það mun koma í ljós á laugardaginn hvort Stig takist að komast með lag sitt í Eurovision í þriðja skiptið á fjórum árum.

Úrslitakvöldinu verður skipt í tvær umferðir. Fyrsta umferð er á þann veg að öll 10 lögin verða flutt og efstu þrjú ákveðinn með blöndu af símakosningu og dómnefnd, vægi hvors verður 50%. Seinni umferðin verður á þann veg að þrjú efstu lögin verða flutt á ný og sigurvegarinn ákvarðaður með 100% símakosningu.

Gaman er að segja frá því að keppnin er haldin í Saku Suurhall sem er einmitt sama höll og lokakeppni Eurovision var haldin árið 2002, eftir hinn eistneska sigur árið áður.

Þótt flestir verði eflaust með hugann við okkar eigin Söngvakeppni þá verður hægt að hita upp með því að byrja í Eistlandi. Áhugasamir geta horft á keppnina í gegnum heimasíðu eistneska sjónvarpsins (https://otse.err.ee/k/etv) og mun fyrri umferðin byrja kl. 15:30 á íslenskum tíma (17:30 á eistneskum tíma). Á milli umferða er rúmlega hálftíma pása, ekkert verið að fresta fréttum og veðri þarna í Eistlandi. Seinni umferðin hefst síðan kl. 17:35 á íslenskum tíma (19:35 á eistneskum tíma).