Óvæntur sigurvegari í rúmensku undankeppni Eurovision

Ein stærsta undankeppni Eurovision vertíðarinnar í ár var haldin í Rúmeníu. 60 lög tóku þátt í 5 undanriðlum víðsvegar um landið þar á meðal í þekktri saltnámu sem er vinsæll ferðamannastaður í Rúmeníu. Þrjú lög komust áfram úr hverjum undanriðli og sunnudaginn 25. febrúar var haldin glæsileg lokakeppni í höfuðborg Rúmeníu, Búkarest. Í undanriðlum hafði dómnefnd kosið milli laga en í úrslitakeppninni var hrein símakosning. Fyrirfram var búist við því að vinsælustu keppendurnir, söngkonan Feli og hljómsveitin Jukebox, myndu slást um sigurinn enda dáðir tónlistarmenn í sínu landi og hefur Feli meðal annars verið tilnefnd til evrópsku tónlistarverðlauna MTV. Bæði veðbankar og Eurovision spekingar höfðu spáð sigri annars hvors lags og sumir nokkuð vissir um að það væri aðeins formsatriði að krýna sigurvegara svo örugg væri Feli um sigur.

Feli – Bună de iubit (Royalty)

 

Jukebox ft. Bella Santiago – Auzi cum bate

 

Það fór þó ýmislegt öðru vísi en búist var við. Boðið var upp á hörkuspennandi símakosningu þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu mínútunum en fyrirkomulag rúmensku símakosningarinnar er þannig að staðan í kjörinu er kynnt með reglulegu hætti þannig að hægt er að fylgjast með hverjir eru að fá flestu atkvæðin. Svo fór að Jukebox ft. Bella Santiago enduðu fjórðu með 1728 atkvæði og Feli náði aðeins þriðja sætinu með 2862 stig. Í öðru sæti lenti ungt og óþekkt par, Alexia og Matei, sem aðeins höfðu byrjað að syngja saman eftir að hugmynd kviknaði fyrir ári síðan að senda inn lag í undankeppnina. Þau raunar leiddu símakosninguna mjög óvænt allt þar til á síðustu mínutunum og lentu í öðru sæti með 3114 atkvæði, rétt rúmlega 100 atkvæðum á eftir sigurvegarunum.

Alexia & Matei – Walking on water

 

Hinir óvæntu sigurvegarar í Búkarest var rokkbandið The Humans. 80’s rokkhljómsveitin Heart virðist blása þeim andagift í brjóst því lag þeirra minnir ansi mikið á kraftmiklar lagasmíðar þeirra og ekki spillir fyrir að söngkona The Humans, Cristina Caramarcu, getur þanið raddböndin á svipaðan hátt og þær Wilson systur. Meðlimir The Humans segjast semja tónlist frá hjartanum og að lög þeirra séu uppspretta af tilfinningum og túlkun þeirra.

The Humans – Goodbye