Fjórir FÁSES viðburðir í kringum úrslit Söngvakeppninnar 2018

Það má með sanni segja að FÁSES taki úrslitahelgi Söngvakeppninnar með trompi þetta árið. Hvorki meira né minna en fjórir viðburðir eru skipulagðir fyrir æsta Eurovision aðdáendur. Förum aðeins yfir þetta.

Eurovision Barsvar

Söngvakeppnishelgin byrjar á Barsvari (e. pub quiz)Þar munu Steinunn Björk Bragadóttir, Kristín Kristjánsdóttir og Kristján Jóhannes Pétursson (þ.e. Steina, Stína og Stjáni) vera spurningahöfundar. Þau þrjú fræknu eru vön að einoka barsvars-sigurinn svo nú er tækifærið fyrir okkur hin að láta til okkar taka!

Barsvarið verður haldið kl. 20, föstudaginn 2. mars, í sal Samtakanna 78 við Suðurgötu 3 í Reykjavík. Engar áhyggjur þarf að hafa af liðum – við skiptum í lið á staðnum svo allir geti kynnst betur.

Eurovision Zumba

Flosi Jón Ófeigsson, formaður FÁSES, stendur fyrir Eurovision Zumba í samvinnu við aðra kennara Reebok Fitness, eins og hefðin mælir fyrir um. Zumbað verður kl. 11.15-12.15 í Reebok Fitness Holtagörðum, laugardaginn 3. mars. Öll velkomin, opið hús – engin skráning nauðsynleg.

Fyrirpartý FÁSES

Síðar sama dag ætlar FÁSES að hertaka og betrekkja með fánum sal Tölvunarfræðinga að Engjateigi 9. Þar verður fyrirpartý FÁSES haldið, og maður minn hvað þið eigið von á góðri upphitun! Fingramatur, Eurovision tónlist og hver veit nema einn eða tveir leynigestir láti sjá sig?

Endilega meldið ykkur á facebook viðburðinn – og verið öll hjartanlega velkomin! Gleðin byrjar kl. 16.30 (við mælum með tímanlegri mætingu!) og upp úr kl. 19 förum við að tygja okkur yfir í úrslitin í Laugardalshöll.

Euroklúbburinn í Reykjavík

Eftir að við höfum komist að því hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision í Lissabon ætlum við öll að skunda yfir á Ölver, þar sem eftirpartý FÁSES verður haldið, sem við viljum svo hóflega kalla Euroklúbbinn! Þar verða tilboð á barnum, Dj Hjálmar Forni verður með Eurovision tónlist á fóninum og bókað tryllt stemming í góðum félagsskap.

Söngvakeppnisstjörnur á Euroklúbbnum

Eins og flestir vita er nú enginn Euroklúbbur án Eurovision stjarna og nú þegar hafa Fókus hópurinn, Stefanía Svavarsdóttir, Aron Hannes, Dagur Sigurðsson og Ari Ólafsson boðað komu sína á sviðið á Euroklúbbnum! Við vonumst að sjálfsögðu til að sjá fleiri keppendur á sviðinu, endilega hnippið í þau ef þið rekist á þau.

Við hlökkum gríðarlega til að hitta ykkur öll í Júró-stuði! Ekki gleyma myllumerkjunum #12stig og #fáseshjartað!