Fimm ný framlög um helgina: Frá þjóðlagapoppi til þungarokks.


Það var sannkölluð súperhelgi í Eurovision heiminum, því fimm ný framlög bættust í hópinn. Það voru Lettar, Slóvenar, Úkraínumenn, Ungverjar og Moldóvar sem að völdu sína fulltrúa um helgina, og lögin eru sannarlega jafn ólík og þau eru mörg.

Nei, en takk samt.

Slóvenar hafa aldrei riðið feitum hesti frá Eurovision og hafa hæst komist í 7. sæti á 25 ára sögu sinni í keppninni. En þeir slá þó ekki slöku við þegar kemur að því að velja sitt framlag. Slóvenar kusu sitt lag á föstudagskvöldið þegar að úrslitakvöld EMA fór fram í Ljubljana. Það var hin framhleypna Lea Sirk sem hafði sigur með laginu “Hvala, ne!” en það má þýða sem “Nei, en takk samt!”. Lagið þykir nokkuð framúrstefnulegt og ólíkt því sem Slóvenar hafa sent frá sér undanfarin ár og Lea mun svo sannarlega vekja athygli í Lissabon. Úrslit réðust af niðurstöðu sex mismunandi dómnefnda og svo símakosningu og fékk Lea fullt hús stiga frá öllum dómnefndunum en varð í 3.sæti í símakosningunni. Hvað gerist svo í Lissabon er ómögulegt að segja til um. Annaðhvort mun Evrópa taka Leu með opnum örmum, eða einfaldlega segja: “Nei, en takk samt!”.

Ungverskt þungarokk á boðstólnum.

Ungverjar hafa aldrei unnið Eurovision en hafa verið nokkuð vinsælir meðal áhorfenda og aðdáenda í gegnum árin og hæst komist í 4. sæti. A Dal keppnin í Ungverjalandi er óralangur ferill og ekki fyrir alla að fylgjast með en eftir óteljandi undankeppnir, var loksins komið að því að velja framlag þeirra á laugardagskvöldið. Eins og margir muna, mætti sígauninn Joci Pápas til Kiyv í fyrra og heillaði Evrópu með þjóðlagarappinu sínu “Origo”. En nú kveður aldeilis við annan tón, því að það eru þungarokkararnir í AWS sem fljúga munu ungverska fánanum með laginu “Viszlát nyár” sem þýðist sem “Bless sumar”. Keppninni var skipt í tvennt. Fyrst fluttu allir keppendur sín lög fyrir framan sérstaka dómnefnd sem gaf svo sín stig. Fjórir stigahæstu keppendurnir fóru svo áfram í súperfínal, þar sem hrein símakosning réði úrslitum. AWS eru gríðarlega vinsælir í heimalandinu og því kemur ekki á óvart að þeir skyldu vinna með yfirburðum. Það verður því hreinræktað ungverskt þungarokk sem fær að hljóma í Lissabon í maí, og spurning hvort restin af Evrópu sé tilbúin fyrir strákana í AWS.

Dramatík í Úkraínu.

Gestgjafar seinasta árs eru sko ekkert að grínast þegar kemur að því að velja sitt framlag. Vidbir kallast forkeppnin í Úkraínu og tók næstum fimm tíma frá upphafi til enda, með óteljandi auglýsingahléum og allskyns húllumhæi. Það var að lokum hinn sérstaki Mélovin sem sigraði með yfirburðum og mun því flytja lagið “Under the ladder” í maí. Úrslit réðust með 50% vægi sérstakrar dómnefndar og svo 50% símakosning. Dómnefndin var skipuð fyrrum sigurvegaranum Jamölu, Andriy Danelko, sem er maðurinn á bakvið ómótstæðilegu dragdrottninguna Verku Serduchska og svo Yevhen Filatov, sem er einhver stórgúbbi hjá úkraínska sjónvarpinu. Og það varð að sjálfsögðu drama, því að Andriy/Verka sakaði Tayönnu, sem endaði í öðru sæti, um að hafa tekið flutning sinn upp fyrirfram og hreyft svo varirnar. Tayanna flutti lagið sitt einfaldlega aftur og afsannaði þá kenningu algjörlega, en stuðningsmenn hennar voru ekki par sáttir, og hótaði m.a.s einn þeirra í salnum að lemja Andriy í klessu. Stuðningsmenn Mélovins voru heldur engin lömb að leika sér við, og voru ófeimnir við að hóta Jamölu öllu illu í beinni útsendingu. Róum okkur aðeins hérna!! En Mélovin vann engu að síður, og spurning hvort hann nær að toppa arfaslakt gengi O.Thorvald síðan í fyrra.

Moldóvskt þjóðlagapopp.

Moldóvar elska Eurovision og leggja allt sitt í undankeppni O melodie pentru Europa, þrátt fyrir að vera eitt fátækasta landið í Evrópu. Það var samt ekki að sjá á laugardagskvöldið þegar að úrslitakvöldið fór fram í Chisinau með pompi og prakt. Það var nokkuð augljóst frá upphafi, hverjir myndu sigra keppnina, en söngtríóið DoReDos kom, sá og saltaði keppinauta sína algerlega með laginu “My Lucky Day” sem samið er af Eurovision risanum Filip Kirkorov, sem var t.a.m. á bakvið lagið hans Sergey Lazarev “You´re the only one” árið 2016, sem lenti í 2. sæti. DoReDos voru að keppa í O melodie í þriðja skiptið og höfðu loksins erindi sem erfiði, því þau áttu keppnina frá upphafi, enda lagið fjörugt og grípandi og með sterkar rætur í moldóvskri þjóðlagahefð. Úrslitin réðust með hinni alkunnu 50/50 skiptingu dómnefndar og símakosningar og DoReDos burstuðu hvorutveggja með yfirburðum. Það verður því annað tríó sem fer fyrir hönd Moldóvíu í Eurovision og gaman að sjá hvort DoReDos muni toppa velgengni Sunstroke Project, sem lentu í 3.sæti í fyrra í Úkraínu og státa því af besta gengi Moldóvíu frá upphafi.

Lettnesk Bond-stúlka.

Lettar hafa einu sinni unnið Eurovision, en það gerðu þeir árið 2002 þegar að Marie N söng sig til sigurs með laginu “I Wanna” í Tallin. Þeir héldu forkeppni sína Supernova með bravúr í Riga um helgina. Átta lög voru eftir af þeim 63 sem að hófu leik í desember, og þegar uppi var staðið var það Laura Rizzotto sem að sigraði með laginu “Funny Girl”, sem gæti sem best átt heima í Bond mynd. Flutningur Lauru var ástríðufullur og tælandi og minnti um margt á upprunalegu “Funny Girl”, sjálfa Barbra Streisand. Supernova er ein af flottari forkeppnum Eurovision og Lettar leggja mikið í umgjörðina, sem var hin glæsilegasta. Fram komu m.a hljómsveitin Brainstorm, en þeir voru fluttu frumraun Letta árið 2000 í Stokkhólmi og er lagið þeirra “My Star” eitt ástsælasta Eurovision lag seinni tíma og mun vinsælla og eftirminnilegra en sigurlag þeirra. Úrslit Supernova réðust af samanlögðum niðurstöðum sérstakrar dómnefndar, Spotify hlustunum og hreinni símakosningu og að lokum var það Laura sem stóð uppi með pálmann í höndunum en í öðru sæti varð hljómsveitin Sudden Lights, sem komust inn í lokakeppnina á wild card. Evrópa fær því að njóta Bond-skotinnar ballöðu frá Lettlandi í ár, og vonandi að Laura nái að gera betur en Triana Park gerði í Kiyv, en sveitin endaði í seinasta sæti í forkeppninni, og er það versti árangur landsins síðan 2009.