Júró-Gróa kynnir sér nærbuxnatísku Eurovision dansara

Stellu Rósinkranz, danshöfundi Svölu fyrir Eurovision í ár, brá heldur betur í brún þegar górilla Francesco Gabbani tók af sér górilluhöfuðið því í ljós kom að hún þekkti sænska dansarann, Filippo Ranaldi, úr dansheiminum!

Kristian Kostov, sautján ára keppandi Búlgaríu, skemmtir sér vel í Kænugarði. Í moldóvska partýinu var kauði að njóta léttu veitinganna og var barasta komin á fjórða glas þegar FÁSES mætti á svæðið. Hann hafði greinilega engar áhyggjur af frammistöðu sinni á æfingu daginn eftir, sem hann by the way negldi!

Júró-Gróa var svo heppin að vera baksviðs á Euroclub í gærkveldi þar sem Robin Bengtsson og dansarar hans voru að undirbúa sig fyrir að koma fram. Það er klárt mál að sænska sendinefndin er fagmannleg fram í fingurgóma og æfði hópurinn performansinn mörgum sinnum áður en stigið var á sviðið. Júró-Gróa var sérstaklega áhugasöm um búninga dansarana. Til þess að halda hvítu rúllukragabolunum á réttum stað ofan í buxunum eru tveir strengir neðan á bolunum framan og aftan sem eru síðan bundnir saman í klofinu. Aha sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur?

Eins og FÁSES liðar vita er alltaf ein dramadrottning í Eurovision og þetta árið virðist það vera Tamara frá Georgíu. Það er víst frekar erfitt að gera henni til geðs og til dæmis vill hún ekki koma fram á eftir hvaða listamönnunum sem er. Hún hefur einnig látið hafa eftir sér í georgískum fjölmiðlum að Eurovision eigi hana ekki skilið.

Margir í blaðamannahöllinni hafa í undrun dáðst að tungumálakunnáttu kynnanna þriggja, þeirra Oleksandr, Volodymyr og Timur. Sögur herma að breska sendiráðið í Úkraínu hafi verið með þá þrjá í einkakennslu í ensku síðan í mars.

Måns Zelmerlöw var leynigestur í partýi OGAE International og Wiwibloggs á Euroclub í gærkveldi. Mans tryllti lýðinn með aðalnúmerunum sínum Cara Mia og Heroes. Síðan ætluðu hann og Edward af Sillén, handritshöfundur Eurovision í fyrra og aðstoðarmaður Måns í þularstarfinu hér í Kænugarði, að taka Love, love, Peace Peace (fræga hléatriðið frá Eurovision 2016) en því miður þurftu þeir að bakka með það því tæknin var ekki að vinna með þeim.

Og að síðustu; Norðmennirnir í JOWST lögðu fram formlega kvörtun í gær vegna þess að ljósagríma Joakims virkaði ekki á dómararennslinu fyrir seinni undankeppnina í gærkveldi. Kvörtuninni var hafnað og þeir fengu ekki að koma fram öðru sinni.