FÁSES tók púlsinn á Robin Bengtsson

Það kom mörgum á óvart þegar Robin Bengtsson sigraði Melodifestivalen í mars síðastliðnum með laginu I can’t go on. Robin varð efstur í úrslitum alþjóðlegu dómnefndarinnar en vægi hennar vegur 50% á móti símaatkvæðum sænsku þjóðarinar. Robin varð þiðji í símakosningunni á eftir Nano og Wiktoriu, frægum poppstjörnum í Svíþjóð, og því hefur sigur hans í Melodifestivalen ekki verið óumdeildur.

Robin Bengtsson hefur þó sýnt og sannað hér í Kænugarði að hann á heima á stóra sviðinu og söng sig inn í úrslit Eurovision síðasta þriðjudagskvöld. FÁSES.is gafst tækifæri til að hitta á kappann hér í borginni og ræða stuttlega við hann um Melodifestivalen, íslenska tónlist og heimsóknina til Íslands nýlega. Hann laumaði því líka að okkur að honum hefði þótt ægilega gaman þegar hann og unnusta hans keyrðu um landið að hlusta á útvarpsstöðina K100 og hann hafi verið mjög hissa að heyra I can’t go on í útvarpinu einn daginn!

Um leið og við óskum Robin og hans teymi góðs gengis á laugardaginn látum við fylgja með uppáhaldslag Robins úr Melodifestivalen í ár, Good Lovin’ með Benjamin Ingrosso.