Lagahöfundar og flytjendur fá innblástur úr hinum ýmsum áttum þegar kemur að framlögum þeirra í Eurovision. Í ár eru að minnsta kosti tvö lög sem sækja innblástur alla leið út í geim og af því tilefni ætlum við að fara yfir nokkur framlög úr sögunni sem búa yfir einhvers konar tengingu við geiminn.
GEIMLÖG ÁRSINS Í ÁR
Það gefur augaleið að umfjöllun þessi hefjist á laginu sem ber nafnið Space. Lagið er framlag Svartfjallalands og hefur flytjandinn, Slavko Kalezic, vakið mikla athygli fyrir íburðamikla sviðsframkomu sína og þá sérstaklega langa fléttu sína sem hann mun víst sveifla um af áfergju á sviðinu. Deila má um hvað texti lagsins sé nákvæmlega um, en tenging hans við geiminn er augljós. Lagið ber heitið geimur auk þess sem hann minnist á Vetrarbrautina, geimskip, Mars og Venus ásamt því að sungið er um að rannsaka stjörnuþokur.
Montenegro 2017 – Slavk Kalezic – Space
Seinna lag ársins sem hægt er að tengja við geiminn er framlag Kýpverja sem ber heitið Gravity. Þótt að fyrirbærið þyngdarafl sé langt því frá eingöngu einskorðað við geiminn, þá er nú ekki erfitt að sjá tenginguna við það síðarnefnda. Lagið sjálft fjallar þó ekki beint um geiminn, heldur er það titill lagsins sem kom því á þennan lista.
Kýpur 2017 – Hovig – Gravity
GEIMLÖG FYRRI ÁRA
TEXTAR OG TITLAR
Við byrjum á framlagi Úkraínu frá 2013, sem ber einmitt sama heiti og það kýpverska í ár, Gravity. Tengingin við þemað er þó ekki sterkari en titillinn, en nóg tenging engu að síður til að komast í þessa yfirferð.
Úkraína 2013 – Zlata Ognevich – Gravity
Sigurlag Þjóðverja frá 2010 bar titilinn Satellite, sem ætti að vera frekar augljós tenging við geiminn. Í laginu syngur Lena um að vegna ástar sinnar fljúgi hún eins og gervihnöttur á braut í kringum viðkomandi, hvorki meira né minna.
Þýskaland 2010 – Lena – Satellite
Síðasta lagið í textahluta þessarar yfirferðar er lag Letta frá árinu 2003, en það bar heitið Hello From Mars. Lettar voru gestgjafar keppninnar þetta árið en gengið var ekki neitt til að hrópa húrra fyrir þar sem þeir lentu í 24. sæti af 26 keppnisþjóðum með einungis 5 stig. Það má nú samt deila um merkingu textans, hann er eflaust ein stór og djúp myndlíking, en í texta lagsins er talað um að „himnarnir koma niður til jarðar, til að segja halló frá Mars“. Takið líka eftir hvað söngkonan líkist leikkonunni Gillian Anderson sem leikur Dana Scully í þáttunum The X-Files, hægt væri að líta á það sem smá auka-tengingu við geiminn.
Lettland 2003 – F.L.Y. – Hello From Mars
BÚNINGAR
Geimurinn er heillandi og veitir ótalmörgum einstaklingur innblástur, þar á meðal búningahönnuðum í Eurovision.
Geimurinn virðist vera einkar heillandi í Svartfjallalandi, þar sem texti og titill framlags þeirra í ár er ekki í fyrsta skipti sem Svartfellingar líta út fyrir andrúmsloft jarðar eftir innblæstri. Framlag Svartfellinga árið 2013 var fjallaði kannski ekki um geiminn, heldur partý, en sviðsframkoman var innblásin af geimförum og vísindaskáldsskap. Rappararnir tveir voru nefnilega klæddir í ‘full-on’ geimbúninga og söngkonan sem söng viðlagið var íklædd búning sem minnti óneitanlega á Borg-karakterana úr Star Trek heiminum.
Svartfjallaland 2013 – Who See – Igranka
Moldóva bauð upp á framlagið Falling Star árið 2016 og þótt titill lagsins gæti eflaust tengst stjörnuhrapi þá er það búningur dansarans ástæðan fyrir veru framlagsins í þessari umfjöllun. Dansarinn birtist þegar um ein og hálf mínúta er liðin af laginu og er klæddur í aðeins léttari útgáfu af geimbúningi en kollegar hans frá Svartfjallalandi, enda varð maðurinn að geta dansað í búningnum. Hér átti sér líka stað smá ‘rífa-sig-úr-fötunum’ gjörningur, en það vildi nú ekki betur til en svo að þegar dansarinn var búinn að renna frá jakkanum birtist aðgangspassinn hans og sveiflaðist til og frá á hálsinum hans það sem eftir lifði lags. Sem betur fer er þetta ekki mjög áberandi, en glöggvir áhorfendur tóku samt eftir þessu og um leið og þú sérð þetta þá geturu aldrei ‘unsee-nað’ það.
Moldóva 2016 – Lidia Isac – Falling Stars
Búningahönnuður gríska hópsins árið 2002 var eflaust búinn að horfa dálítið á geimstríðsmyndir á borð við Starship Troopers þegar hönnunin á búningum grísku flytjendanna átti sér stað. Þeir voru nefnilega klæddir eins og geimhermenn, sem þótti eilítið undarlegt og út úr karakter lagsins það sem það var í raun bara klassískur ástaróður. Reyndar kemur fram í texta lagsins að ef að einstaklingurinn sem ástaróðurinn er sunginn til vilji ganga inn í heim söngvarans þurfi viðkomandi að gefa upp lykilorð sem gæti hljómað pínu vísindaskáldskaparlegt, en búningarnir þóttu engu að síður ekki passa alveg við lagið.
Grikkland 2002 – Michalis Rakintzis – S.A.G.A.P.O.
Hér með er þessari geimumfjöllun lokið, en áreiðanlegar heimildir gefa til kynna að bakgrunnur nokkurra atriða í ár muni bera keim af ýmsu geimtengdu. Við bíðum spennt eftir að sjá það!