Bonjour kæru lesendur! Vinir okkar í Frakklandi völdu sitt framlag um helgina og auðvitað var mikið um dýrðir í TV-France Studio seinasta laugardag. Þar kepptu 12 lög um að feta í fótspor Barböru Pravi, sem réttilega hefur verið tekin nánast í dýrðlingatölu eftir frábært gengi í Rotterdam í fyrra, þegar hún svo eftirminnilega tryggði Frökkum annað sætið með “Voila”. Fréttaritari gerði sér lítið fyrir og skellti sér hreinlega út til Parísar að fylgjast með keppninni og varð svo sannarlega ekki svikin, þar sem öll umgjörð var gríðarlega flott og ekki var nú sigurlagið síðra, þar sem þjóðin ákvað að feta glænýja slóð og sendir í ár bretónsku sveitina Alvan&Ahez með þjóðlega teknóslagarann “Fulenn”.
Eins og áður sagði, voru 12 lög um hitunina í Eurovision France – C´est vous que décidez. Uppsetningin var kunnug, í fyrri umferð kepptu öll lögin og komust sex lög áfram í seinni umferð, svokölluð gullúrslit, þar sem sigurvegarinn var ákveðinn með 50/50 vægi símakosningar og dómnefndar. Fimm lög voru kosin áfram af þjóðinni í gullúrslit og svo var 10 manna dómnefnd, sem m.a. var skipuð hinum ástsæla stuðtappa Gjon´s Tears (eða Gjon´s Tears…my dear, eins og kynnirinn og ofurmamman Laurence Boccolini kaus að kalla hann allt kvöldið). Dómnefndin var einnig skipuð valinkunnum frönskum listamönnum á borð við söngkonuna Yseult sem einhverjir ættu að kannast við og Nicolettu sem er einskonar Helga Möller þeirra Frakka, og ákvað dómnefndin að smella einum svartapétri til viðbótar inn í gullúrslit, og þar varð nú aldeilis rekistefna!
Eftir hvert lag, fékk dómnefndin að segja sitt álit og voru þau ekki alltaf sammála innbyrðis. Söngvarinn Cyprien Zeni sem söng lagið “Ma familie” sem var sólarpopp með afrískum áhrifum, en Nicoletta svo gott sem rústaði honum eftir flutninginn. Þá reis Yseult á fætur, reif stólpakjaft við Nicolettu og fékk m.a.s. áhorfendur á band með sér. Fréttaritari hélt satt að segja á tímabili, að það myndu brjótast út slagsmál, svo mikill var hitinn á milli þeirra. Þetta hræddi greinilega hina í dómnefndinni því þau ákváðu einróma að gefa Cyprien svartapéturinn, þ.e. að vera sjötti flytjandinn í gullúrslitum, en hann endaði svo í 5. sætinu í lok kvölds.
Annað sætið kom í hlut Pauline Chagne og lagsins “Nuit Pauline” sem er franskur nýbylgjupoppslagari af bestu gerð og átti góðu gengi að fagna meðal áhorfenda eftir lýtalausan flutning Pauline, sem minnir um margt á Ninu Hagen.
Í þriðja sæti varð rappdúettinn SOA, en þau eru bæði ættuð frá Samoa-eyjum og fluttu lagið “Seule” við mikinn fögnuð áhorfenda, enda lagið einstaklega grípandi og kraftmikið.
En það var nokkuð ljóst frá upphafi, hvert hugur þjóðarinnar og dómnefndar stefndi, því Alvan&Ahez gjörsamlega rústuðu keppinautunum og unnu afgerandi sigur. Alvan og raddtríóið Ahez hafa þekkst í fjöldamörg ár. Þau kynntust í skólanum og hafa haldið vináttu og samstarfi áfram í gegnum tíðina. Þau eru öll fædd og uppalin á Bretaníuskaga, og eru stolt af gelískri arfleifð sinni, eins og heyra má á “Fulenn” sem er sungið á bretónsku, en það er eina gelíska tungumálið sem enn er talað að staðaldri í Evrópu. Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem bretónskan heyrist í Eurovision, en Frakkland sendi árið 1996 þjóðlagasveitina Dan Ar Braz et L´Hértages des Celtes, og fluttu þau hið gullfallega “Diwanit Bugale”. Því miður féll það lag þó alveg í skuggann af írska sigurlaginu, og hlaut napurleg örlög því þau enduðu í 19. sæti af 22 með einungis 18 stig.
Vonandi bíða betri örlög “Fulenn” í ár, því nú róa Frakkar á glæný mið, enda aldrei verið hræddir við að prófa eitthvað nýtt. Taktfast teknópopp með gelísku ívafi, var það heillin, og miðað við þær móttökur sem franska framlagið er að fá á meðal aðdáenda, þá er alveg raunhæfur möguleiki að lagið muni skila Frökkum mjög góðum árangri í maí. Allavega segjum við Viva la France!