70´s sýrupopp og leyndardómsfull hljómsveit frá Georgíu.


Georgía er eitt af skemmtilegri löndunum sem taka þátt í Eurovision, að öllum öðrum ólöstuðum. Georgíumenn og konur hafa haft einstakt lag á að bjóða alltaf upp á mismunandi stíla og tónlistarstefnur, frá því landið tók fyrst þátt árið 2007. Stundum hafa þeir slegið feilnótur, enda annað óeðlilegt, en oftast hafa þeir komið með skemmtilegar og skrítnar nálganir á tónlist og framkomu. Í ár er engin breyting þar á, því til leiks mætir leynihljómsveitin Circus Mircus með lagið sitt “Lock Me In”, en þetta er öfgahresst og strangheiðarlegt sjöupopp, sem eflaust fær einhverja til að dilla sér á dansgólfinu. Circus Mircus hefur einnig lofað að laginu muni fylgja myndband fyrr heldur en síðar, og við bíðum bara spennt eftir því.

Georgíska sjónvarpið, GPB tilkynnti strax um miðjan nóvember 2021, að Circus Mircus hefði þegar verið valin innbyrðis til að taka þátt fyrir hönd landsins í Tórínó. Þrátt fyrir að mikil leynd hvíldi yfir hljómsveitarmeðlimum, ákváðu þeir samt að gefa fólki smá innsýn inn í líf sveitarinnar í bráðskemmtilegu kynningarmyndbandi þar sem ónefndur maður segir okkur nákvæmlega hvað Circus Mircus stendur fyrir.

Auðvitað fóru strax sögur á kreik um hverjir stæðu á bak við hljómsveitina, eða öllu heldur samkunduna eins og Circus Mircus kýs að kalla sig. Sú allra allra lífseigasta og sennilegasta er að þarna sé á ferð söngvarinn og lagahöfundurinn Nika Kocharov sem við munum eftir frá Stokkhólmi 2016, þar sem hann, ásamt hljómsveitinni Young Georgian Lolitaz, flutti hið ofurskrítna en bráðskemmtilega “Midnight Gold” og öðlaðist í kjölfarið ákveðið “cult following” ef oss leyfist að sletta aðeins. Og vissulega er mikil spenna innan aðdáendakreðsunnar fyrir að sjá Nika mögulega stíga aftur á Eurovision sviðið.

Eins og áður sagði, hafa Georgíumenn alltaf farið sínar eigin leiðir. Síðan þeir þreyttu frumraun sína 2007, hafa þeir 11 sinnum komist í úrslitin og hæst náð 9. sætinu, en það gerði söngkonan og núverandi borgarstjórinn Sofia Nizharadze árið 2010. Þetta er reyndar einstaklega afslappað lið þarna í Georgíu og mesta dramað sem hefur verið í kringum þá, var árið 2009 þegar þeim var hreinlega bannað að taka þátt í Moskvu nema að breyta texta lagsins “We Dont Wanna Put In”, en hann þótti ákveðin árás og ádeila á þann sem við skulum ekki nefna hér. En annars er þetta friðarins þjóð og ekki mikið fyrir að ota sínum tota að óþörfu. Vilja greinilega bara hafa gaman af lífinu fyrst og fremst. Í fyrra komst ballöðubrýnið Tornike Kapriani ekki í úrslitin en vonandi tekst Circus Mircus að enda þurrkatímabil landsins, en seinast komust Georgíumenn áfram árið 2016…með hjálp Nika Kocharov. Tilviljun?