Hin hollenska S10 sameinar sálir á erfiðum tímum


Hollendingar, gestgjafar Eurovision í fyrra, voru ekki með neina undankeppni hjá sér fyrir Eurovision í ár, heldur valdi sjónvarpsstöðin AVROTROS listamann og lag. Þeir hafa oft haft þann háttinn á. Það gerðist strax í desember að það var tilkynnt um flytjandann. Það er Stien den Hollander sem kallar sig S10, borið fram Estín. S10 er fædd á því herrans ári 2000 og er söngkona, rappari og lagahöfundur. Hún hefur starfað sem slík síðan hún var 16 ára eða í sex ár. Árið 2019 gaf hún út fyrstu sólóplötuna sína, Snowsniper. Henni var afar vel tekið og fékk stórkostlega dóma. Hún vann meðal annars til Edison verðlaunanna fyrir hana, sem eru tónlistarverðlaun í Hollandi sem veitt eru árlega.

Lagið sjálft var síðan gert opinbert þann 3. mars síðastliðinn. Það nefnist De diepte eða Dýptin og er eftir S10 sjálfa og Arno Krabman. Þetta er fyrsta lag Hollendinga í 12 ár sem er flutt á hollensku, eða síðan Sienke tók hollensku Geirmundarsveifluna Ik ben verliefd. Það eru einnig komin fimm ár síðan kona keppti fyrir hönd Hollands í Eurovision. S10 segir lagið tileinkað sorg og erfiðum minningum sem við berum með okkur. Allir upplifi erfitt tímabili í lífi sínu, það er eitthvað sem við eigum öll sameiginlegt. Hún vonar að fólki finnist gott að finna að einhver hafi upplifað það sama og finnst það ekki eins eitt og einmanna fyrir vikið. Lagið er í rólegri kantinum, einfaldleikinn ræður ríkjum og er eitt af þeim þar sem minna stendur fyrir meira. Í myndbandinu hér að neðan fylgir enskur texti fyrir áhugasama.

Gengi Hollendinga í Eurovision hefur verið afar brokkgengt. Það hafa komið gullaldartímabil og botntímabil. Einnig hafa komið öfgatímabil þar sem þeir hafa verið með þeim efstu og svo með þeim neðstu og öfugt. Síðustu keppnir eru dæmi um það. Þeir unnu árið 2019 þegar Duncan Laurence heillaði Evrópu og heimsbyggðina alla eftirminnilega með laginu Arcade. Í fyrra urðu þeir hins vegar meðal neðstu þjóða þegar Jeangu Macrooy flutti lagið Birth of a New Age og fékk til dæmis ekki eitt einasta stig í símakosningunni. Það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist í ár.