Senhit keyrir blóðflæðið í gang með “Adrenalina”


Ójá, fríkdrottningin frá San Marino er komin og það fer sko ekki framhjá neinum, því nú á sko að skrúfa upp hitann í húsinu. Við bjóðum Senhit velkomna og búum okkur undir adrenalínkikk ársins.

San Marínó er í smá uppáhaldi hjá mörgum aðdáendum, enda er þetta pínkuponsu krúttríki ákaflega duglegt við að prófa sig áfram með nýjar nálganir á hverju ári og hefur sent okkur ótal gjafir í kjölfarið, sérstaklega í formi flytjenda. Mætti ég minna á fröken Valentinu Monetta og meistara Serhat t.d? Senhit, sem ættuð er frá Afríkuríkinu Erítreu, er heldur ekkert ókunnug keppninni, því þetta er tæknilega séð í þriðja skipti sem hún keppir. Hún sást fyrst í Düsseldorf árið 2011 með ballöðuna “Stand By”, og þótt hún hafi ekki haft erindi sem erfiði, var hún án efa einn eftirminnilegasti keppandinn það árið, því blaðamenn og aðdáendur voru á einu máli um að þar færi einstaklega hlý, vinaleg og meinfyndin manneskja.

Í fyrra bauð Senhit okkur í eldhressa furðuferð í laginu “Freaky”. Í ár ætlar hún að taka fríkið skrefinu lengra og bjóða okkur í sjóðheita og latínuskotna salíbunu sem hún nefnir “Adrenalina”. Og Senhit er sko aldeilis ekki ein á ferð, því það er enginn annar en bandaríski rapparinn Flo Rida sem aðstoðar hana við flutning lagsins. Við munum kannski best eftir honum úr hinum bráðskemmtilega og ofurtvíræða sumarsmelli “Whistle”, sem sló í gegn árið 2012. Myndbandið við “Adrenalina” er litríkt og skemmtilegt og mikið lagt í það. Hárkollubudgetinn einn og sér hlýtur að vera um 15% af landsframleiðslu San Marínó. Sagan segir að bæði Kýpur og Azerbaijan hafi hafnað laginu áður en það lenti hjá Senhit, en við tökum það fram að það eru óstaðfestar fregnir!

“Adrenalina” hefur heilan her vel þekktra lagahöfunda á bakvið sig (eiginlega of marga til að telja upp), en á meðal þeirra eru t.a.m. fyrrum hjónin Joy og Linneu Deb sem voru heilarnir á bakvið “Heroes”.  Lag Senhit hefur, síðan það kom út, skotist eins og elding upp veðlistana og situr sem stendur í 10. sæti yfir þau lög sem líklegust eru til að sigra Eurovision í maí og er það án efa það hæsta sem San Marínó hefur komist á svona listum í aðdraganda keppninnar, allt frá því að þeir tóku fyrst þátt 2008.

Hvort sem það verður raunin eða ekki í maí, og hvort Flo Rida mæti sjálfur á svæðið til að rappa live, vitum við ekki. En það er hins vegar skjalfest að Senhit er fáránlega hress og skemmtileg týpa og óhrædd við að kanna nýjar víddir og nýjar tónlistarstefnur. Og viðurkennið það bara… við elskum öll San Marínó innst inni og viljum hag þeirra sem bestan.