Meira Amen, nú frá Austurríki


Austurríki var fyrst með í Eurovision árið 1957 og senda sitt 54. framlag til keppninnar í ár (2020 meðtalið). Þeir eiga tvö sigurlög að baki með ansi löngu millibili, flutt af Udo Jürgens 1966 og Conchitu Wurst 2014. Einnig vann Cesár Sampson dómnefndaratkvæðin árið 2018 með laginu Nobody But You og endaði í 3. sæti. Austurríkismenn hafa líka átta sinnum verið í síðasta sæti og fjórum sinnum hafa þeir fengið núll stig.

Í desember árið 2019 ákvað ORF, austurríska sjónvarpið, að velja Vincent Bueno til að flytja Eurovisionlagið fyrir Austurríki árið 2020. Það var því engin söngvakeppni þar í landi. Lagið Alive var svo gert opinbert í byrjun mars. En svo já… við vitum öll hvað gerðist. Alive var R&B danssmellur, en lagið í ár er kraftballaða. Það heitir Amen og var gert opinbert þann 9. mars og án nokkurar keppni.

Vincent Bueno, sem er 35 ára er einnig þekktur undir listamannsnafninu Suitcase. Hann varð fyrst þekktur árið 2008 þegar hann vann söngvakeppnina Musica! Die Show! í Austurríki. Hann hefur síðan þá samið og sungið mikið af tónlist, mest R&B. Foreldrar Vincents eru bæði frá Filippseyjum og hefur hann einnig búið þar undanfarin ár og unnið í tónlist.

Þetta er ekki fyrsta Eurovisionlagið sem heitir Amen. Og ekki einu sinni eina lagið með þessum titli í ár, þar sem framlag Slóveníu ber sama titil. Lag Ísraela árið 1995 bar einnig sama titil. Það lag endaði í 8. sæti og nú er spurning hvort lögin í ár geri betur. Hins vegar hafa tvö lög sem hafa “Hallelujah” í titlinum unnið keppnina.