Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda, AMEN!


Þá er Ana Soklič mætt aftur eftir að hafa verið ein af þeim sem fékk annan sjéns að keppa aftur fyrir hönd sinnar þjóðar, en hún flutti lagið Voda í fyrra. Það hefur sennilega verið lán í óláni þar sem laginu var spáð síðasta sætinu í veðbönkunum í fyrra.

Ana hefur tvisvar tekið þátt í forkeppninni í Slóveníu og þrisvar sinnum í Slovenian Song Festival þar sem hún hefur verið verðlaunuð fyrir framkomu og fyrir besta lagið. Hún flytur lög sín oft með sinfóníuhljómsveitum á hátíðum og í sjónvarpi, þar á meðal með Sinfóníuhljómsveit RTV í Slóveníu og syngur oft einnig með minni sveitum. Þetta eru uppáhaldstónleikar hennar vegna þess að henni finnst tengingin við áhorfendur vera sem ósviknust og nánust. Það verður því áhugavert að sjá hvernig hún tæklar það að vera í sal þar sem jafnvel engir áhorfendur munu verða.

Ana Soklič byrjaði ung að syngja og lærði meðal annars hjá Darja Švajger sem ætti að vera okkur Eurovision aðdáendum kunnug þar sem hún tók þátt fyrir Slóveníu árin 1995 og 1999. Ana hefur ákveðið að leita til æðri máttarvalda og biður Guð sinn um hjálp við að freista þess að gengi hennar verði tryggt með gospelóði. Eurovision aðdáendur voru fljótir að tengja lagið hennar Amen við stórsöngkonuna Adele og má greinilega heyra “Adelevæpið” í gegnum það og raddir þeirra eru keimlíkar. Lagið er kraftmikil ballaða og byggist vel upp með týpiskum gospel endi, “The Mamas you better watch out”. The Mamas eru einmitt að reyna að verða fulltrúa Svía aftur í Eurovision og ef þeim tekst það ólíklega að vinna, þá verður gaman að sjá hvaða lag mun vinna gospel einvígið. Spurning hvort Vincent Bueno frá Austurríki bætist í gospel keppnina því lagið hans heitir einmitt líka Amen. Vincent er einnig eins og Ana einn af þeim keppendum sem fékk boð um að taka þátt aftur án þess að undankeppni yrði haldin. Lagið hennar Önu er sennilega ekki sigurvegarinn í ár en ekki heldur það versta sem er í boði.

Kristín fór vel yfir gengi Slóvena í Eurovison í pistli sem hún skrifaði í fyrra og er mjög fróðlegt að lesa.

Slóvenía hefur oft verið í uppáhaldi hjá mér í gegnum tíðina og finnst mér Slóvenía skera sig úr hinum Balkan löndunum þegar það kemur að fjölbreytni. Þau fara aldrei eftir einhverri uppskrift, má þar nefna dansandi flugfreyjur í dragi, yfir í hjartaknúsara eins og Anžej Dežan með poppsmellinn Mr. Nobody árið 2006 sem er eitt af mínum uppáhalds frá Slóveníu.

Hér kemur framlag Slóvena í ár: