Sykursætt og Eurostjörnuprýtt atriði frá Moldavíu


Framlag Moldavíu til Eurovisonkeppninnar í ár var tilkynnt í beinni útsendingu á YouTube fimmtudagskvöldið 4. mars. Annar höfundur lagsins, Phillip Kirkorov, hélt langa ræðu í útsendingunni og spilaði inn á milli brot úr gömlum Eurovisionlögum sem hann og hinn höfundur lagsins, Dimitris Kontopoulus, hafa samið, en þau eru þó nokkur. Ræða Kirkorov stóð í nærri klukkutíma, en þá tók við dansatriði. Athugasemdakerfið á YouTube gaf til kynna að áhorfendur væru orðnir óþolinmóðir að bíða eftir laginu. Flytjandi lagsins Natalia Grodienko kom svo loks fram á sviðið þegar 80 mínútur voru frá upphafi útsendingar og flutti brot úr mikið af sömu Eurovisionlögunum og skipti um föt og gervi eins og henni er einni lagið. Framlagið sjálft var svo loksins flutt eftir rúmlega 90 mínútur.

Lag Moldavíu í ár heitir Sugar og er danspoppsmellur. Natalia átti að flytja lagið Prison í fyrra en það fór eins og við öll þekkjum. Hún er eins og höfundarnir ekki ókunnug Eurovision. Hún keppti árið 2006 með lagið Loca ásamt Arsenium og rapparanum Connect-R. Mögulega setti hún þá Eurovisionmet í að skipta um föt, en það gerði hún þrisvar í þriggja mínútna lagi.

Natalia fæddist í Chisinau þann 11. desember 1987 og hefur starfað sem söngkona og dansari í ýmsum verkefnum síðan árið 2005. Meðal annars hefur hún keppt í þó nokkrum söngvakeppnum, bæði í Moldavíu og eins í alþjóðlegum keppnum, fleirum en Eurovision. Hún er því ýmsu vön í söngvakeppnisheiminum.

Phillip Kirkorov byrjaði Eurovisionferilinn árið 1995 þegar hann keppti sjálfur fyrir Rússland með lagið Kolybelnaya dlya vulkana sem endaði í 17. sæti. Sugar er ekki fyrsta lagið sem Kirokorov og Kontopoulus vinna saman. Samstarf þeirra hófst árið 2008 þegar þeir sömdu og framleiddu saman lagið Shady Lady sem Ani Lorak söng. Þeir hafa svo báðir átt talsvert af lögum í keppninni bæði saman og með öðrum.

Moldóvar voru fyrst með í Eurovision árið 2005 og sungu þá eftirminnilega um ömmu sem spilar á trommur. Þeir hafa verið með óslitið síðan og er Sugar þeirra sextánda framlag, að því gefnu að Prison er ekki talið með. Moldóvar hafa oftar en ekki komist upp úr forkeppninni. Besti árangur Moldóvu í Eurovision er 3. sætið árið 2017 þegar Sunstroke Project með epíska saxófónleikarann fremstan í flokki komu með heldur betur hressandi „kombakk“. Moldavía hefur fjórum sinnum endað á topp tíu. Nú er spennandi að sjá hvað Natalia gerir í ár. En hér er framlagið í ár, lagið Sugar gjörið svo vel: