Lesley Roy í kortaveseni – “Maps” er framlag Íra í ár.


Nú stígur á stokk einn af góðkunningjum ársins 2020 og það er partýpían Lesley Roy sem snýr aftur fyrir hönd Íra, og að þessu sinni ætlar hún sko alla leið til Rotterdam og til að baktryggja sig, mætir hún með lagið “Maps”…svona til að villast örugglega ekki.

Eins og fram kom í pistlinum um Lesley í fyrra, er hún ákaflega hress og skemmtileg og greinilega alltaf til í gott partý, eins og lagið hennar “Story of my life” sýndi og sannaði, en það var ofurléttur poppsmellur sem gaman var (og er) að dansa við. “Maps” er, líkt og forverinn, fjörugt popplag, en það kveður þó kannski við örlítið fullorðinslegri tón heldur en í “Story of my life”. Lagið er samið af Lesley sjálfri, ásamt Svíunum Lukas Hällgren, Emilie Erikson, Philip Strand og hljómsveit hans Normandie, og síðast en ekki síst á hollenski plötusnúðurinn Deepend sinn skerf í laginu líka. Sannarlega fjölþjóðleg stemmning hjá frændum okkar í ár.

Írar hafa nú ekki beint verið að upplifa the glory days undanfarin ár, en í ár eru 25 ár síðan Eimear Quinn söng sig til sigurs í Osló með lagið “The Voice”. Halló! Hvert fór tíminn!? Og síðan undankeppnir urðu partur af Eurovision, hafa Írar aðeins komist 6 sinnum áfram síðan 2004, en það ár var Írland sjálfkrafa með í aðalkeppninni, vegna góðs árangurs árið áður. Og einungis einu sinni í þessi 6 skipti, hafa þeir verið í topp tíu, en það var árið 2011, þegar tvíburadúettinn Jedward, sem eru klárlega óskilgetin afkvæmi Duracell kanínunnar og Speedy Gonzales, sykursjokkeraði sig í 7. sætið með hinu ógleymanlega “Lipstick”.

Við vitum náttúrulega ekkert hvernig Lesley hefði gengið í fyrra, en vonum að sjálfsögðu að henni gangi bara glimrandi í ár, því það væri nú ósköp notalegt að sjá Írland vinstra megin á stigatöflunni árið 2021, svona upp á gamlan kunningsskap. Og hver veit nema “Maps” standist kröfur Evrópu og Ástralíu. Kemur allt í ljós, en Lesley stígur þriðja á svið í fyrri forkeppninni þann 18. maí nk.