Þjóðverjar með mótsvar við Íslendinga


Þjóðverjjar tefla fram laginu I Don’t Feel Hate í Eurovision með hinum stórskemmtilega Jendrik (mælum með að fylgja honum á TikTok og á Instagram!) Lagið átti að frumflytja á hádegi í dag á streymisveitum og klukkan 17 í eftirmiðdaginn á að birta myndbandið á Youtube. Laginu var hins vegar lekið á Twitter í gærkvöldi og í anda lagsins gaf Jendrik út yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem hann sagðist ekki finna til haturs heldur einungis gleði með lekann. Yfirlýsingin er skrifuð yfir mynd sem Jendrik teiknaði sjálfur og sýnir hann umvafinn Eurovision aðdáendum sem hann segir að hljóti að vera allir tölvusnápar (hakkarar).

Það hefur lengi verið draumur hins 26 ára gamla Hamborgara Jendriks að keppa í Eurovision. Hann ákvað að setja það út í kosmósið í fyrra að hann hefði áhuga á að taka þátt í Eurovision. Og viti menn, Werner sem stjórnaði leitinni að listamönnum til að taka þátt í forvalinu um framlag Þýskalands, sá Jendrik á samfélagsmiðlum og hafði samband við hann. Þýska sjónvarpinu NDR leist svo vel á að þau buðu honum að senda lagið inn í forvalið. Jendrik ákvað að slá til og taka þetta alla leið.

Þjóðverjar voru með skemmtilega nálgun á forvalið í ár og héldu forkeppni sem þó var ekki sýnd fyrir alþjóð eins og við eigum að venjast. Þess í stað var dómnefnd skipuð sem fékk að kjósa um sitt uppáhald. Helmingur atkvæðanna var í höndum 20 alþjóðlegra tónlistarspekúlanta og hinn helmingurinn í höndum 100 þýskra Eurovision aðdáenda. Aðdáendurnir voru valdir í hópinn eftir því hvernig þeir röðuðu eftir smekk sínum lögunum sem kepptu í Eurovision 2019. Þeir sem voru með listann sem næst raunverulegum úrslitum voru valdir í dómnefndina. Í heildina voru 300 lög sem dómnefndirnar gátu valið úr. Þar voru bæði lög sem höfðu verið send inn og einnig lög sem voru samin í sérstökum tónsmíðabúðum sem keppendunum var boðið að taka þátt í.

Að lokum var það lagið hans Jendriks sem stóð upp úr og var valið til þátttöku í Eurovision. Lagið I Don’t Like Hate er kósý úkúlele smellur sem límist á heilann við fyrstu hlustun. Þegar þetta er skrifað er ekki búið að birta myndbandið við lagið á Youtube, en það verður aðgengilegt á Youtube í dag 25. febrúar klukkan 18:00. Skemmtilegt að segja frá því að í myndbandinu sem mun birtast hér að neðan, eru yfir tuttugu þvottavélar sem Jendrik sankaði að sér (úff, eins og það sé ekki nógu erfitt að burðast með eina þvottavél!)

Það þarf ekki tryllta samsæriskenningasmiði til að sjá að velgengni Íslands í Eurovision árin 2019 og 2020 sé þýska sjónvarpinu NDR í huga þegar þau völdu Jendrik. Lagið heitir I Don’t Feel hate, sem hlýtur náttúrulega að vera andsvar Jendriks við Hatara. Svo er Jendrik duglegur á TikTok þar sem hann hefur verið að kitla aðdáendur síðan í fyrra með upplýsingum um atriðið sitt. Það skyldi þó ekki vera að hann sé að reyna við sama fylgjendahóp og okkar eini sanni Daði Freyr, ókrýndur sigurvegari Eurovision 2020.