Gjon´s Tears býður okkur í ferðalag um heiminn.


Svissnesk/albanski hrokkinkollurinn og krúttmolinn Gjon Muharremaj, eða Gjon´s Tears eins og hann kýs að kalla sig, er mættur aftur. Að þessu sinni liggur honum ýmislegt á hjarta og allar þessar pælingar má finna í ballöðunni “Tout l´Universe” eða “Allur Heimurinn” eins það þýðist á íslensku.

Gjon var spáð fáránlega góðu gengi í fyrra þegar hann tefldi fram annarri og alls ekki síðri ballöðu, “Répendez-moi”. Hann er ekkert að koma inn með einhverjum afslætti í ár heldur, en hann er í augnablikinu í efsta sæti veðbankanna, rétt á undan Daða okkar. Lagið samdi hann í svokölluðum lagahöfundabúðum, sem eru að verða æ vinsælla fyrirbrigði í forvali fyrir Eurovision. Hann nýtur aðstoðar þeirra Wouter Hardy, Ninu Samperman og Xavier Michel við lagið, en líkt og fyrirrennarinn, er “Tout l´Universe” áferðafalleg strengjaballaða með nútímalegum blæ og fær rödd Gjon að njóta sín í botn.

Að sögn hans er texti lagsins um áleitnar spurningar sem leita á okkur öll. Er líf eftir dauðann? Hvað bíður okkar? Hvers vegna erum við hér? Er eitthvað handan heimsins? Svona smá tilvistarkreppa en samt ekki. En eins og sjá má í myndbandinu er þetta gríðarlega sorgleg en falleg tilvistarkreppa hjá Gjon, þar sem hann ferðast í lofti yfir Sviss og alveg út í himingeiminn sjálfan, í einhverskonar ferðalagi utan líkamans.

Gjon, sem tók upp listamannsnafnið sitt eftir að hann bókstaflega grætti afa sinn þegar hann söng Elvis-slagarann “Can´t help falling in love”,  er afskaplega einlægur drengur og sagði í viðtali stuttu eftir að lagið kom opinberlega út að hann vonaðist til að tónlist hans hreyfi við fólki, hvort sem það er í formi gleði eða sorgar.  Og þrátt fyrir rólyndislegt yfirbragð, er hann líka mjög peppaður fyrir verkefninu sem Eurovision er. “Ég er ótrúlega ánægður með að geta loksins tekið þátt í Eurovision og miðlað gleði í gegnum tónlistina mína!” sagði hann í yfirlýsingu sinni.

Og við erum peppuð að fá loksins að sjá Gjon´s Tears í allri sinni dýrð á sviðinu í Rotterdam, en hann mun stíga á svið í seinni forkeppninni þann 20. maí.