Hurricane trylla allt og alla í “Loco Loco” fyrir hönd Serbíu.


ATH. Við viljum biðja fólk að festa alla lauslega muni niður, hreinsa frá niðurföllum og jafnvel taka niður trampólínin, því þær eru mættar! Serbneska kvennatríóið Hurricane sagði að vísu bless bless í fyrra, en það var bara djók, því Sanja, Ivana og Ksenija eru 5. stigs fellibylur og nú ætla þær að gera allt brjálað í Evrópu með poppsmellinum “Loco Loco”.

“Hasta la Vista” var eitt af eftirminnilegri lögum seinasta árs, enda sameinaði lagið allt það sem við júrónördar elskum. Það var fjörugt, úrkynjað, dásamlegt, bótoxskotið og náttúrulegt, bæði allt saman í einu! Og nú hafa stelpurnar í Hurricane hækkað spennustigið allsvakalega því þær eru alveg gaga núna. Ef þið voruð að elska “Hasta la Vista” að þá er “Loco Loco” er nánast alveg eins, nema kannski betra? Og serbneska sjónvarpið kveikti strax á viðbrögðum Evrópubúa og ákvað að velja Hurricane innbyrðis og senda þær af stað til Hollands með nesti og nýja hælaskó.

Líkt og í fyrra, er lagið samið af Sönju og Nemönju Antonic, en að þessu sinni fengu þær einnig til liðs við sig lagahöfundinn Darko Dimitrov. Og það er engin hörgull á glimmeri, glysi og almennu attitjúdi, því eins og áður sagði, stelpurnar koma ekki tvíelfdar til leiks, þær mæta tíefldar.

Lagið er sungið nánast alfarið og eingöngu á serbnesku (1 stig í pottinn þar) nema titill lagsins er að sjálfsögðu á spænsku og svo er ein einasta lína sungin á ensku. Að öðru leiti er þetta þvottekta, balknesk diskósprengja sem er pakkað inn í æpandi neonlita pleðurpakkningu. Og við megum klárlega eiga von á rosa flottu sjóvi í Rotterdam þann 20. maí næstkomandi. Er svo einhver til í að hringja í Víði og biðja hann um að hækka hættustig almannavarna, því hvað sem öllum jarðhræringum og heimsfaraldri líður, þá er kraftmikill serbneskur fellibylur á leiðinni og fólk verður að vera tilbúið! Þetta verður eitthvað…