Jeangu Macrooy boðar byltingu og nýja tíma í “Birth of a New Age”.


Einn viðkunnalegasti flytjandi ársins og seinasta árs, Jeangu Macrooy, er mættur aftur til leiks fyrir hönd gestgjafanna og í þetta sinn verða hlutirnir ekki teknir neinum vettlingatökum, því hann er barn byltingarinnar í laginu “Birth of a New Age” sem verður framlag Hollendinga á heimavelli, og nei. Lagið er EKKI um sóttvarnarþreytuna í Evrópu.

Í fyrra höfðu Hollendingar ákveðið að tefla fram hinni lágstemmdu en fallegu sálarballöðu “Grow” en í ár er farið í þveröfuga átt, því “Birth of a New Age” er að öllu leiti kraftmeira, poppaðra og undir sterkum og þjóðlegum áhrifum frá Súrínam, en Jeangu er einmitt fæddur og uppalinn þar og syngur hluta lagsins á sínu tungumáli, Sranan Tong. Það mætti eiginlega segja að framlag Hollendinga í ár sé nokkurs konar uppgjör við hvers kyns óréttlæti í gegnum aldirnar og öllum fordómum og heimsvaldastefnum er gefinn puttinn í melódískri merkingu. Svona “Stopp! Hingað og ekki lengra!” söngur.  Jeangu semur lagið sjálfur í samstarfi við hollenska lagahöfundinn og pródúserinn Pieter Perquin, sem alla jafna gengur undir vinnuheitinu Perquisite og er virtur og vel þekktur í tónlistarsenunni bæði innan Hollands og utan þess.

Kynvitund, þjóðerni, trúarbrögð og kynhneigð eru meðal þess sem hefur verið notað gegn fólki öldum saman. Jeangu sjálfur er hreinlega sérfræðingur í því að stíga yfir alls kyns hindranir á leiðinni að takmarki sínu enda mikill baráttumaður fyrir t.a.m. réttindum LGBTQ+ fólks í heimalandi sínu Súrínam og hefur sjálfur upplifað eitt og annað á sinni ævi. “Þetta lag er fyrir alla þá sem eru óhræddir við að standa með sjálfum sér og fagna sínum lífsgildum, hver sem þau eru”, segir hann í samtali við hollenska kynninn Cornald Maas þegar lagið var kynnt seinasta fimmtudag.

Við munum því sjá líflegt atriði, fullt af eldmóði og með súrínamískum áhrifum í Rotterdam í maí, og allt það og meira til, er í boði Jeangu Macrooy. Og hvað sem fólki mun svo finnast, verður það greinilega ekki íþyngjandi fyrir Jeangu, því hann er tilbúinn í slaginn hvernig sem fer. Evrópa getur ekki haggað honum, því eins og segir í textanum: “Yu no man broko mi”, sem beinþýðist sem “þú getur ekki brotið mig”. Amen og skál í boðinu fyrir Jeangu Macrooy!