Litasprengja frá Montaigne og Ástralíu.


Ástralska indípoppdívan Montaigne fékk, eins og svo margir aðrir, annan séns á að stinga tánni í Eurovisionlaugina eftir þetta ömurlega heimsfaraldursfíaskó í fyrra. Hún bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðafólkið svo það var mikil spenna fyrir laginu hennar. Og nú er Montaigne hætt í ástarsorg, því nýja lagið hennar “Technicolour” er ekkert nema litagleði og fjör út í gegn.

Það voru margir ansi hissa í fyrra, þegar Ástralía kynnti okkur fyrir Montaigne og trúðadramanu hennar “Don´t break me”, en eins og svo oft áður, læðast áströlsku framlögin aftan að manni, og maður veit ekki fyrr en maður er farin að dansa og góla með eins og Dingóhundur með ADHD. Og lagið í ár býður svo sannarlega upp á að taka eitt eða tvö hressileg dansspor.

Montaigne (sem heitir í raun Jessica Cerro) er ákaflega sérstök og áhugaverð tónlistarkona, og dugleg að leika sér með allskyns stefnur í tónlistarsköpun sinni. Lagið í fyrra var svo sannarlega ekki allra, en engu að síður öðlaðist það mikið fylgi og er það ekki síst að þakka Montaigne sjálfri, sem verður seint flokkuð sem “hefðbundinn söngkona og flytjandi” en hefur gríðarlega sterka sviðsnærveru og mikinn sjarma.

Hún semur lagið sjálf, ásamt Dave Hammer, og þrátt fyrir að lagið sé á allan hátt allt öðruvísi en “Don´t break me”  þá má svo sannarlega heyra að þetta lag er algjörlega Montaigne út í gegn. Það verður spennandi að sjá hvað þessi skemmtilega tónlistarkona dregur upp úr farteski sínu þann 18. maí, en það verður eflaust eitthvað magnað. Allavega er Montaigne búin að henda grátandi trúðnum út, og nú eru það bara litir og lekkerheit sem blívur.