Fyrsta Söngvakeppni Sjónvarpsins 40 ára


Árið 1981 ákvað Ríkisútvarpið að vera með söngvakeppni í líkingu við þá sem nú er þekkt sem undankeppni Íslands fyrir Eurovision. Sjónvarpið hafði auglýst eftir nýjum lögum sem höfðu ekki komið út áður og um 500 lög bárust, sem er talsvert. Fimm undankeppnir voru haldnar, þeirri fyrstu var sjónvarpað laugardaginn 31. janúar. Í hverri undankeppni voru sex lög og tvö komust áfram í úrslitaþáttinn. Fyrirkomulagið var því dæmigert fyrir undankeppni Eurovision. Það var meira að segja hægt að finna stigablað í Dagblaðinu! Forsvarsmenn Sjónvarpsins neituðu því þó að verið væri að undirbúa þátttöku Íslands í Eurovision. Það var reyndar ekki hægt á þessum tíma þar sem það var ekki komið á gervihnattasamband við Ísland. Það komst á árið 1983 og var Eurovision sýnd í beinni útsendingu á Íslandi fyrst það ár.

Úrslitaþáttur Söngvakeppninnar var sýndur í beinni útsendingu þann 7. mars, eða fyrir nákvæmlega 40 árum í dag. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við rifjum þessa keppni upp í dag. Áhorfendur voru í sal, meðal annars höfundar laganna, en lögin voru þó kynnt undir dulnefnum. Hundrað manna dómnefnd var á staðnum og fjórar aðrar úti á landi sem allar voru einnig 100 manna.

Fimm söngvarar fluttu lögin og sáu einnig um bakraddir hjá hvort öðru. Þetta voru þau Helga Möller, Ragnhildur Gísladóttir, Haukur Morthens, Pálmi Gunnarsson og Jóhann Helgason. Helga, Pálmi og Jóhann áttu öll eftir að keppa í Söngvakeppninni síðar eftir að hún var orðin undankeppni Eurovision. Pálmi og Helga voru svo hluti af ICY-tríóinu sem flutti fyrsta lag Íslands í Eurovision, Gleðibankann, árið 1986 eins og þekkt er. Tíu manna hljómsveit spilaði undir í Söngvakeppninni 1981. Hljómsveitarstjóri var Magnús Ingimarsson, en aðrir meðlimir voru Þórður Árnason, Tómas M. Tómasson, Ásgeir Óskarsson, Pétur Hjaltested, Gunnar Ormslev, Árni Scheving, Hafsteinn Guðmundsson og Sigurður Flosason. Egill Ólafsson var kynnir. Hann hefur lítið komið að Söngvakeppninni eftir þetta en var þó í bakröddum í Hægt og hljótt árið 1987. Stjórnandi upptöku var Rúnar Gunnarsson og Edda Andrésdóttir var honum til aðstoðar.

Þetta var fyrsta söngvakeppnin sem var haldin í sjónvarpi á Íslandi. Í keppninni var reglulega tekið fram og talað um hvað hefði getað farið úrskeiðis á úrslitakvöldinu, sem var í beinni útsendingu. Undankeppnirnar höfðu verið teknar upp fyrirfram. Meðal annars var sagt frá því hvað ætti að gera ef efstu lög yrðu jöfn að stigum og reglulega er kannað hvort það sé samband við staðina úti á landi þar sem dómnefndir sátu. Veðrið úti á landi var víða ekki of gott, en allt lukkaðist þetta.

Söngvakeppni Sjónvarpsins 1981 - Af litlum neista - YouTube

Sigurlagið var lagið Af litlum neista sem Pálmi Gunnarsson söng. Lag og texti er eftir Guðmund Ingólfsson og Magnús Haraldsson aðstoðaði hann við textagerð. Verðlaunin voru 5.000 krónur þá, voru líka kallaðar nýkrónur þar sem það var nýbúið að taka tvö núll af krónunni. Í öðru sæti var lagið Ástarfundur eftir Ingva Stein Sigtryggsson og í þriðja sæti var lagið Á áfangastað eftir Vigni Bergmann. Pálmi söng öll þrjú lögin sem lentu í efstu sætunum.

Keppnin var mjög vinsæl og áhorf mikið. Þrátt fyrir það treysti Ríkisútvarpið sér ekki til að halda aðra sambærilega keppi næsta ár og bar fyrir sig kostnaði. Árið 1985 var svo farið að þrýsta á RÚV að vera með í Eurovision, meðal annars af FTT, Félagi tónskálda og textahöfunda og SATT, Samtökum alþýðutónskálda og tónllistarmanna. Meðal þeirra sem börðust fyrir þessu voru Jóhann G. Jóhannsson, Rúnar Júlíusson og Hinrik Bjarnason. Í desember 1985 var svo auglýst eftir lögum til að vera með í Söngvakeppninni árið 1986 sem þá var í fyrsta sinn undankeppni Eurovision.

Það vill svo til að þessi gersemi er komin á internetið og því hægt að njóta.