Úrslitin í MGP í Noregi ráðast á morgun


Á morgun fara fram úrslit í norsku forkeppninni MGP. FÁSES verður með samáhorf á Zoom en útsendingin hefst klukkan 19 á íslenskum tíma. Nánari upplýsingar á Facebook viðburðinum.


FÁSES-liðinn og stjörnuþýðandinn Oddur J. Jónasson, tók saman pistil um úrslitin í norsku forkeppnina MGP fyrir samstarfsfólk sitt. Hann veitti fases.is góðfúslegt leyfi til að birta greinina hér til að leyfa fleirum að kynnast lögunum sem keppa til úrslita:

Frændur okkar Norðmenn halda lokakvöldið í Melodi Grand Prix næsta laugardagskvöld. 12 lög keppa til úrslita, 6 lög úr forvali og 6 lög úr undankeppninni, þar af 1 lag sem áhorfendur kusu úr hópi þeirra 15 sem sátu eftir. Hellingur af frambærilegum lögum komst ekki í lokakeppnina sem er stjörnum prýdd og óvenjuspennandi í ár. Þar sem engin verður Söngvakeppnin í ár er tilvalið að hella sér út í forkeppnirnar hjá nágrönnum okkar, (nokkuð sem ég geri reyndar hvort eð er líka). Því miður fara öll herlegheitin fram á hinni framandi tungu Norðmanna en örvæntið ekki því ég tók það að mér að taka saman, fyrir áhugasama, smá klausu um hvert þeirra laga sem keppa um það að verða framlag Noregs í Rotterdam í maínæstkomandi.  Ath. allar skoðanir sem á eftir fara eru eingöngu mínar eigin og þurfa á engan hátt að endurspegla skoðanir annarra…

MONUMENT – KEIINO

Íslandsvinirnir í KEIINO snúa aftur með Sama-diskó þemað sitt. (Sáuð þið hvað ég gerði þarna 😉) Tríóið keppti fyrir hönd Norðmanna í ESC í Tel Aviv 2019 með smellinn „Spirit In the Sky“ og lenti þar í 6. sæti. KEIINO þurfti ekki að taka þátt í undankeppni og mætir til leiks með lag sem svíkur engan sem þekkir sveitina. Mæli þó ekkert sérstaklega með að fólk rýni djúpt í kveðskap þremenninganna, skil reyndar ekkert hvað Joikarinn er að Joika en restin er ekkert sérlega dýrt kveðin…
https://www.youtube.com/watch?v=7GUsLvUvSu0

Ut Av Mørket – TIX

Annað lag sem slapp við undankeppnina og aðeins annað af tveimur lögum í úrslitum sem sungið var á norsku upphaflega, nokkuð sem mætti útleggja sem ákveðin dauðadóm í úrslitunum og lagið verður því flutt á ensku á lokakvöldinu. Sprelligosinn TIX mætir á svið með rosa atriði. Flytjandinn, Andreas Haukeland, er tónlistarmaður og samfélagsmiðlastjarna í Noregi og listamannsnafn hans, TIX, vísar í glímu hans við Tourettes-sjúkdóminn (Ticks). Þrátt fyrir yfirdrifið sjóv og pós er lagið samt merkilega grípandi og flott…
https://www.youtube.com/watch?v=G4otEnMUGcg

I Can´t Escape – IMERIKA

Erika Dahlen, eða IMERIKA, kom sá og sigraði á 5. og síðasta undankvöldinu. Lagið er hennar fyrsta sem hún flytur sjálf opinberlega og hvílík innkoma. Sumum þótti hugsanlega nóg um litgleði keppandans en hér er engu að síður stígandi og grípandi lag með einlægum texta frá flytjanda sem kemur sannarlega á óvart. Þess má til gamans geta að Erika er einnig meðhöfundur í öðru lagi sem keppir til úrslita þetta kvöld, „Feel Again“ sem Kaja Rode flytur.
https://www.youtube.com/watch?v=lC7DQ4M94yg

My Lonely Voice – KIIM

Fyrrum fasteignasalinn Kim Rune Hagen, eða KIIM, sigraði 4. undanúrslitakvöldið og mætir til leiks með eigið lag um tilfinningar. Dúndur söngvari þarna á ferð með flotta rödd og þokkalegt lag en því miður er það eina minnistæða við hans flutning ef til vill hárgreiðslan á kauða, sem minnir helst á glansandi skammt af steiktum núðlum á kollinum á honum.
https://www.youtube.com/watch?v=d0FEdUSLtNA

Let Loose – Blåsemafian ft. Hazel

Blåsemafian, eða The BlowjobMob, blés á alla samkeppni og lúðraði heim sigri á fyrsta undankvöldinu með hjálp söngkonunnar Hazel. Brassbandið er þekkt víða um Evrópu og mætir hér með svaka dansnúmer og húkk sem auðvelt er að fá á heilann, sannkölluð Lúðrasveit Twerkalýðsins!
https://www.youtube.com/watch?v=Wq1GQVMfF_s

Hero – Raylee

Söngkonan, leikkonan og dansarinn Raylee sigraði annað undankvöldið með ´80s slagaranum Hero. Mætti á svið í Flashdance-gír og skolaði svo samkeppnina af sér með vænni skvettu úr vatnsfötu í lok atriðis. Fínt stuðlag fyrir ´80s tjúttara með vængjagreiðslu.
https://www.youtube.com/watch?v=9NQcAQU3Oag

Eyes Wide Open – Rein Alexander

Digurbarkinn Rein Alexander þótti sigurstranglegastur í MGP í fyrra þar til elsku besta Ulrikka mætti og slökkti í þeim glæðum með verðskulduðum sigri. Eftir sat Rein með sviðna lófa en hann dó þó ekki ráðalaus og sá þann kostinn vænstan að ráða lagahöfunda Ulrikku til að töfra fram nýtt sigurlag. Það verður reyndar að segjast að þótt Rein Alexander þenji sig og belgi á alla kanta er þetta lag hálfgerð vonbrigði þegar litið er bæði til flytjanda og höfunda en annar þeirra er sjálfur Ketil Mørland  sem keppti fyrir hönd Norðmanna í Vín 2015 með lagið vinsæla „A Monster Like Me“.
https://www.youtube.com/watch?v=00j6fbdYf0Q

Witch Woods  – EMMY

Galdrakerlingin EMMY, (enn einn keppandinn sem kynnir sig með hástöfum…) sigraði 3. undankvöldið með einu best sviðsetta atriði keppninnar í ár. EMMY tók þátt í Junior Grand Prix 2015 og uppfyllir draum sinn með þátttökunni í lokakeppninni í ár.  Sviðsetningin er mikið sjónarspil, svo mikið að hugsanlega er verið að fela þunna lagasmíð þótt lagið sé engu að síður skemmtilega quirky fiðlupopp undir sterkum áhrifum frá Billie Eilish.
https://www.youtube.com/watch?v=8yorqezbixg

Faith Bloody Faith – Jorn

Gamlir rokkhundar eru jafnreglulegir gestir í söngvakeppnum Evrópu eins og lúsin í barnaskólum landsins. Og jafnvelkomnir að margra mati. Rokkrisaeðlan Jorn, Jörn Lande, er hokinn af reynslu með tæpar 50 plötur undir beltinu með gommu af rokksveitum og er jafnvel lýst sem helstu tónlistarútflutningsvöru Noregs fyrir utan A-ha. Jorn hlaut náðir norskra áhorfenda og komst í úrslitin sem „wild card“ lagið. Þar fer hann mikinn með víkingarokkurum sem mæma rokk sem mest þeir mega á meðan sá gamli rekur rokkhornin framan í myndavélarnar. Til gamans má geta þess að einn meðhöfunda lagsins er Åge Sten Nilsen, forsprakki hinnar goðsagnakenndu glyssveitar WigWam sem tryllti lýðinn í ESC í Kænugarði 2005 og glöggir hlustendur ættu að merkja það ef þeir nenna að hlusta á Jorn…
https://www.youtube.com/watch?v=14wfBoGYNFk

World On Fire – Atle Pettersen

Atle Pettersen er einn forréttindapésanna sem þurfti ekki að keppa um sæti á lokakvöldinu. Atle er meðal annars söngvari bandsins The Scheen. Hann hefur tekið þátt í JuniorMGP og varð í öðru sæti í norska X-Factor 2010. Framlag hans er sykursætt strákapopp í Eurovision-anda og atriðið svo óeftirminnilegt að þetta er eina lagið sem ég mundi ekkert eftir í þessari upptalningu. Atle fær það erfiða verkefni að hefja lokakvöldið sem á líklega ekki eftir að hjálpa svo auðgleymanlegu atriði. Sorrí Atle…

Feel Again – Kaja Rode

Kaja Rode er enn einn ungi þátttakandinn sem steig sín fyrstu skref í söngkeppni í sjónvarpi, að þessu sinni The Voice 2017. Lagið sem hún flytur, „Feel Again“,  þurfti ekki að keppa í undankeppninni og Kaja stígur á svið í látlausu atriðið sem minnir þó aðeins á hina sænsku Loreen sem sigraði ESC 2012. Lagið er þó öllu erkitýpískara skandinavískt Eurovision-popp og Kaja hin frambærilegasta söngkona. Þess má geta að einn meðhöfunda lagsins er Erika Dahlen sem keppir sjálf til úrslita með lag sitt „I Can´t Escape“.
https://www.youtube.com/watch?v=zkJl5YaX4Zg

Who I Am – Stavangerkameratene

Síðast og jafnvel síst, að mínu mati amk. er ofurgrúppan Stavangerkameratene með lagið Who I Am eða Barndomsgater eins og það hét upphaflega. Ofurgrúppan samanstendur af sigurvegurum og þátttakendum úr hinum ýmsu söngkeppnum, er ofsalega vinsæl í Noregi og selur plötur í bílförmum. Lagið er ekta norskt Allsang-lag, köntrískotið línudanslag sem yrði álíka vinsælt í lokakeppni ESC og rauðu piparkornin í fetaostskrukkunum… Og ekki orð um það meir….

Öll lögin má nálgast inni á veraldarvefnum, bæði myndbönd af flutningi þeirra og stúdíóupptökur. Nú er bara að hella sér af krafti í að kynna sér þetta og búa til skemmtilega stemningu í stofunni heima næsta laugardagskvöld… 😊
Oddur J. Jónasson