Tick Tock! – Króatar eru búnir að velja.


Dobra večer! Áfram rennur júróvertíðin og að þessu sinni bárust straumarnir til Króatíu, nánar tiltekið til borgarinnar Opatija, þar sem úrslitakeppnin Dora 2021 fór fram seinasta laugardag. Og að sjálfsögðu fylgdi smá balkneskt drama með í kaupbæti. En ekki hvað…

Sykursnúðurinn Damir Kedzo sigraði keppnina í fyrra með kraftballöðuna “Divlji Vjetre” en var fjarri góðu gamni að þessu sinni (oh). Þess í stað bauð HRT upp á 14 laga forkeppni og úr mörgu var að velja tónlistarlega séð. Það mátti sjá kunnuleg andlit  innan um og saman við fjölbreyttan hóp tónlistarfólks. Gamli melurinn Toni Cetinski var mættur á svæðið, en hann keppti fyrir hönd Króatíu árið 1994, sjálfur gulldrengurinn Borislav Milanov átti eitt lagið og síðast en ekki síst lét söngkonan Nina Krajlic ljós sitt skína en henni var alveg fram að keppnisdegi, spáð sigri með balkanballöðuna “Rijeka“. En þessi keppni er nú svo dásamlega óútreiknanleg, því þegar uppi var staðið, var það danssmellurinn “Tick Tock”,fluttur af söngkonunni Albinu, sem hlaut náð fyrir eyrum og augum bæði dómnefndar sem og króatísku þjóðarinnar. Húrra og eintóm gleði….hjá flestum.

Það var nokkuð ljóst þegar dómarakosningin var hálfnuð, að Nina væri sennilega ekki alveg jafn örugg með sigurinn og spáð var. Albina var stanslaust á hælunum á henni og raðaði inn toppstigum eins og engin væri morgundagurinn, á meðan Nina lómaði í kringum 3.-4. sæti. Og þegar stig símakosningarinnar voru lesin upp, kom í ljós að Nina hafði orðið í 2. sæti með 77 stig en Albina gulltryggði sigurinn með heil 140 stig.

Að sjálfsögðu var mikil gleði í herbúðum Albinu, en Nina var ekki par sátt. Eftirtektarvert var að hún drakk stíft á meðan á stigagjöfinni stóð, og þegar sigurvegarinn var kynntur á svið, stóð hún að vísu upp en klappaði með hálfum hug. Eftir keppni birti Nina svo langan facebook póst þar sem hún bæði hraunaði yfir Albinu, lagið og HRT og sakaði króatíska sjónvarpið um að hafa vísvitandi eyðilagt fyrir sér möguleikann á sigri með því að láta hana vera fyrsta á svið. Og ekki nóg með það, því það er ekki lengra en tæpur mánuður síðan Nina birti annan langorðan fb-póst þar sem hún sagði m.a. að verið væri að reyna að kæfa hana sem listamann, þar sem hún uppfyllti ekki “ákveðna standarda” og fór ekki fögrum orðum um króatíska tónlistariðnaðinn í heild sinni. Nina Kraljic virðist því vera alveg brjáluð og búin að brenna flestar brýr að baki sér. Sennilega verður löng bið eftir því að hún láti sjá sig aftur í tengslum við Eurovision. Hvað varð um ungmennafélagsandann, spyr ég nú bara.

En nóg um drama! Albina heitir fullu nafni Albina Grcic og er fædd árið 1999 í tónlistarborginni Split. Það sást fyrst til hennar í Serbíu þegar hún keppti í X Factor Adria, og komst áfram í aðra umferð. Þar átti að spyrða hana saman við stúlknaband en Albina hafði ekki áhuga og endaði þátttöku sína í keppninni. Hún fangaði svo athygli landa sinna árið 2019, þegar hún keppti í The Voice Hrvatska, og endaði í 3. sæti undir leiðsögn Vönnu (Króatía 2001). Eftir það var leið Albinu til stjarnanna greið og hún hugsaði sig ekki tvisvar um þegar henni bauðst að flytja lagið “Tick Tock” í Dora 2021, enda bráðefnileg og hikar ekki við að taka sporið. Og það ætti ekki að vera erfitt, því framlag Króata er eldhresst danslag og á eflaust eftir að draga fólk út á dansgólfið þegar það má loksins aftur. Og ætti HRT að hringja símtal til Úkraínu og falast eftir eins og einu hamstrahjóli? Nei, bara að spekúlera….