Litháen veðjar (ekkert svo óvænt) aftur á The Roop


Síðastliðinn laugardag fór litháíska forkeppnin Papandom is naujo! 2021 fram í Vilníus og að sjálfsögðu fór það svo að indírokksveitin The Roop fagnaði aftur sigri og mun því stíga á stokk í Rotterdam í maí.

Litháíska forkeppnin hefur ætíð verið smá langloka, en í ár ákváðu þeir samt að stytta biðtímann örlítið og hafa aðeins þrjú undankvöld og eitt úrslitakvöld, sem er ansi ólíkt fyrri árum þar sem Litháar splæstu oftast nær í sirka 23 forvöl, 15 undankeppnir, allavega 6 undanundankeppnir og svo loksins þegar allir voru búnir að missa viljann til að lifa, hvort sem það var innanlands eða utan, pökkuðu þeir þessu snyrtilega saman í eitt rosa úrslitakvöld og settu slaufu á. En ekki í ár, ónei. Fjögur kvöld, þrjú undanúrslit, ein úrslit og málið dautt.

The Roop var með sjálfkrafa þátttökurétt, enda unnu þeir forkeppnina 2020 með hinu ógleymanlega “On Fire”, með fáheyrðum yfirburðum. Reyndar virtist keppnin í ár vera ákveðið formsatriði, kannski aðallega ætluð til að búa til smá show og hressa aðeins upp á fólk, því það var nokkuð ljóst frá upphafi hvert hugur fólks í Litháen stefndi. Fjögurra manna dómnefnd var með helmingsvægi á móti almenningi og það kom algjörlega engum á óvart þegar The Roop rúllaði þessu upp aftur. M.a.s kynnarnir nenntu ekki að látast vera hissa. Í fyrra var The Roop alelda en að þessu sinni munu strákarnir (og stelpan) mæta með diskótek í farteskinu.

Líkt og fyrirrennarinn er “Discoteque” skrítin og skemmtileg lagasmíð og að sjálfsögðu fylgir ógleymanlegur dans með. Það sést sko langar leiðir hversu fáránlega vel þau skemmta sér á sviðinu! Já, krakkar mínir, nú blívur bara að reima á sig dansskóna, fjárfesta í gulum galla og skella sér á litháískt diskótek, því þar er greinilega aðalstuðið. Eins gott að þjást hvorki af gigt eða hjartsláttaflökti, því nú er tekið á! Velkomin aftur til leiks, Vaidotas og félagar og komið fagnandi.