Go_A mætir með hávaðann til Hollands….mögulega.


Lögin fyrir komandi Eurovision keppni tínast nú inn í hrönnum og allt í einu voru Úkraínumenn bara búnir að velja. Kviss, bang, búmm, takk fyrir komuna!

Í fyrra sigraði hljómsveitin Go_A undankeppnina í Úkraínu með lagið “Solovey”, sem var tilraunakennd blanda af úkraínskri þjóðlagatónlist með teknóívafi. Lagið féll vel í kramið hjá aðdáendum sem og veðbönkum og var laginu víðast hvar spáð góðu gengi en svo fór eins og fór. Úkraínska sjónvarpið, UA:PBC ákvað þó að velja Go_A innbyrðis til að taka þátt árið 2021 og lagði sveitin til þrjú lög sem sérstök dómnefnd, sem m.a. var skipuð Jamölu, til að velja á milli þeirra. Þann 4. febrúar síðastliðinn bárust svo algjörlega upp úr þurru, fréttir þess efnis að lagið “Shum” eða “Hávaði” eins og það útleggst á hinu ástkæra ylhýra, hefði verið valið til að fara fyrir hönd landsins til Rotterdam.

Aðdragandi lagavalsins var fremur stuttur í Úkraínu, svona miðað við mörg önnur lönd (hóst Litháen, hóst Noregur) en 1. febrúar sl., settist Go_A niður á Zoom-fund með dómnefndinni og kynnti lögin þrjú, sem fyrir utan “Shum” voru “Rano” og “Tserkovka”. Það var “Shum” sem náði bæði athygli aðdáenda sem og dómnefndar, en í byrjun febrúar var myndbandið við lagið með yfir hálfa milljón áhorfa á Youtube. Það tók því ekki nema þrjá daga fyrir dómnefndina að velja “Shum” sem framlag Úkraínu, en í Eurovision tíma er það ekki nema sirka fimm mínútur. Það verður því etnískt teknórokk á úkraínsku sem stígur á svið í maí nk. … eða hvað?

Það er ALDREI neitt beint í mark og borðleggjandi í Úkraínu og þeir hafa sigið fram úr Hvít-Rússum þegar kemur að megadrama fyrir Eurovision. Stuttu eftir að tilkynnt var að “Shum” yrði framlag landsins, benti Vanya Rassel, sem er úkraínskur Eurovision Youtube bloggari, á þá staðreynd að í laginu mátti finna nokkrar línur sem voru nákvæmlega sömu línur og úr gömlu úkraínsku þjóðlagi, sem ber heitið “Av nashoho shuma”. Og reyndar ekki bara nokkrar línur, heldur heilu versin. Abbabbabb! Í reglum EBU er þó ekkert sem bannar sérstaklega notkun á gömlum textum í nýjum lögum en hinsvegar er skýr regla um það hjá UA:PBC, altso, það bara má alls ekki, eins og eftirfarandi regla, sem ég snéri snöggvast yfir á íslensku með hjálp Google Translate, segir til um:

“Öll lög skulu vera frumsamin (án þess að notast við verk sem þegar eru til), mega ekki hafa verið aðgengileg almenningi, t.a.m. í gegnum þætti á netinu, samfélagsmiðla eða á hverskyns vefsíðum, hvort sem þær eru opnar öllum eða ekki. Lögin mega ekki hafa verið flutt áður á opinberum vettvangi (hvort sem það er lag eða texti) t.a.m. á tónleikum.”

Og sveitin sjálf virðist einnig hafa kommentað á þetta, en þau segja að “Shum” geti ekki verið framlag þeirra til Eurovision þar sem verkið (í þessu tilviki textinn) sé þjóðlag en ekki frumsamið. Á textasíðunni pisni.org.ua sem er mjög vinsæl í Úkraínu, eru höfundar textans skráðir Kateryna Pavlenko, söngkona Go_A og Narodni, sem þýðir í raun að textinn sé gamalt þjóðlag og heimildir um upprunalegan höfund séu ekki til. Og hvað svo? Ef lagið var aldrei ætlað fyrir Eurovision heldur eingöngu sem kynningarlag væntanlegrar plötu og nútímaleg endurgerð á gömlu lagi (svona ef VÖK myndi poppa upp “Móðir mín í kví kví”), afhverju þá að kynna það fyrir dómnefnd? Og hvernig í ósköpunum var téð dómnefnd ekki að kveikja á þessu, sérstaklega í ljósi þessara skýru reglna hjá UA:PBC? Hvað er eiginlega í gangi hérna!?!

Allt í lagi, þetta hlýtur að koma í ljós, en í bili er það “Shum” sem mun taka við kyndlinum og stíga á svið í Rotterdam, en þar sem við vitum nú öll að Úkraínumenn þrífast best ef það er nógu mikið drama í gangi, þá skulum við anda rólega, því það gæti allt breyst á morgun… eða í kvöld. Jafnvel næsta klukkutímann, því ef UA:PBC fer eftir sínum eigin reglum gæti vel farið svo að “Shum” verði dæmt úr keppni, og annaðhvort “Rano” eða “Tserkovska” taki við keflinu. Go_A er allavega pottþétt að fara, svo við getum huggað okkur við það…