Fyrsta lagið tilbúið fyrir aðalkeppni Eurovision – Voilà!


Eftir allt of langan aflabrest er júróvisjónloðnan svo sannarlega fundin! Hörðustu aðdáendur gátu á laugardagskvöldið skemmt sér yfir þriðju undankeppni norsku Melodi Grand Prix keppninnar og litháísku undankeppninni þar sem keppt var um hverjir munu tapa fyrir The Roop og diskótekinu þeirra. En það var morgunljóst að öll sátum við á sætisbrúninni yfir úrslitakeppni Frakka og þeim 12 lögum sem þar bitust um að vera fulltrúi fransmanna í Rotterdam í vor.

Frakkar hafa farið fram og til baka og skipst á að halda undankeppnir síðustu ár og að velja flytjendur með innra vali. Í fyrra var Tom Leeb valin af frönsku sjónvarpsstöðinni með lagið The Best in Me. Í ár var Tom kallinn of upptekinn fyrir Rotterdam 2021. Þá var ákveðið að halda undankeppni en breyta um nafn og halda einungis eitt úrslitakvöld, Eurovision France: C’est Vous Qui Décidez (Eurovision: Það ert þú sem ákveður). Tólf framlög kepptu í tveimur umferðum. Eftir flutning allra laga á sviði var haldin símakosning þar sem sjö lög komust áfram. Tíu manna dómnefnd valdi síðan áttunda lagið áfram með því að gefa því svokallaðan “euro-ticket”. Því næst var kosningin núllstillt og aftur blásið til atkvæðagreiðslu þar sem atkvæði dómnefndar og almennings giltu jafnt. Sem er í sjálfu áhugavert í sjónvarpsþætti sem ber heitið “Eurovision: Það ert þú sem ákveður”.

Dómnefndin var stjörnum prýdd að hætti Frakka. Þar fór fremstur í flokki Amir (Stokkhólmur 2016) ásamt fatahönnuðinum Jean Paul-Gaultier, Duncan Laurance (Tel Aviv 2019), Marie Myriam (London 1977) og Natasha St-Pier (Kaupmannahöfn 2001) svona til að nefna þau helstu. Sóttvarnarráðstafanir í frönsku undankeppninni voru mikið milli tvít-tannanna á fólki í gær enda eru áhorfendur í sal, andlitsgrímulausir kynnar og dómnefndarmeðlimir, faðmlög og kossar, mörgum sjónvarpsáhorfendum á COVID-tímum framandi svo ekki sé meira sagt.

Þrátt fyrir þetta verður ekki annað sagt en að franska undankeppnin hafi staðið fyllilega undir væntingum. Á boðstólnum var franska útgáfan af KEiiNO, heitt afrískt popp og Ken söngvari með dansara í skotapilsum í bland við angistarlegar stórsöngkonur með tár á hvarmi. Allt eins og það á að vera! Það sem helst vakti athygli þessa fréttaritara var mikill skortur á Eiffelturninum í bakgrunni keppenda.

Í þriðja sæti keppninnar lenti dúettinn Pony X með lagið Amour Fou. Þar er á ferðinni ákaflega dansvænt og tiktoklegt hressandi lag þar sem annar söngvaranna ber hesthöfuð á herðunum.

Juliette Moraine lenti í öðru sæti með lagið Pourvu qu’on m’aime. Mjög áhrifarík dramatísk ballaða með hæfileikaríkri söngkonu sem líkist mikið Eurovision goðsögninni Niamh Kavanagh.

Það var síðan uppáhald aðdáendanna, Barbara Pravi, sem sigraði bæði símakosninguna og dómnefndarkosninguna með vel útfært Édith Piaf skotið lag til heiðurs franskrar sönghefðar. Barbara er hvoru tveggja söngkona og lagahöfundur og er af serbnesku og írönsku bergi brotin. Margir Eurovisionaðdáendur kannast við nafnið enda var hún einn höfunda sigurlags Frakka í Junior Eurovision sem fór fram í nóvember sl. Með laginu Voilà stígur lagahöfundurinn Barbara fram í sviðsljósið og við getum ekki annað sagt er bravó!