Taka tvö! Eden Alene til Hollands með “Set me free”.


Júróvertíðin byrjar bærilega og nú þegar hafa Albanir valið sér lag og flytjanda eins og fram hefur komið. Ísraelar voru ekkert að tvínóna við hlutina heldur og þann 25. janúar sl. var framlag þeirra til Rotterdam gert valinkunnugt.

 

Líkt og Íslendingar, ákváðu Ísraelar að halda sig við flytjanda ársins í fyrra, en það er hin tvítuga söngkona Eden Alene sem mun gera aðra tilraun til að fara til Hollands. Í fyrra sigraði hún söngkeppnina HaKokhav HaBa í heimalandinu með lagið “Feker Libi”, sem hún flutti á ensku, hebresku, arabísku og amharic, en það síðastnefnda er opinbert tungumál Eþíópíu, þaðan sem Eden er einmitt ættuð, en foreldrar hennar eru eþíópískir innflytjendur í Jerúsalem.

Eden Alene fékk þrjú lög til flutnings í ár, en það voru lögin “Ue La La”, “La La Love” (nei, ekki lagið hennar Ivy) og svo “Set me free” sem skildu flutt í júróvisjónþættinum HaShir Shelanu l´Eurovizion. Upphaflega ætlaði ísraelska sjónvarpið að vera svolítið grand á því og láta Eden flytja öll lögin á sviði með tilheyrandi látum, en þessi skrambans kórónaveira setti vel þekkt strik í reikninginn, svo niðurstaðan varð sú að sjónvarpsáhorfendur kusu vissulega á milli lagana en urðu að byggja val sitt á tónlistarmyndböndunum sem gerð voru í aðdraganda keppninnar. Sumum kann að þykja það vera eins og að kaupa köttinn í sekknum, en Eden sýndi og sannaði í fyrra að hún er meira en hæf til þess að syngja live.

Framan af töldu flestir að “Ue La La” myndi fara með sigur af hólmi, en fólk er nú svo dásamlega óútreiknanlegt og þegar uppi var staðið hafði “Set me free” heillað flesta áhorfendur í Ísrael og verður því framlag þjóðarinnar í Rotterdam.

Líkt og fyrirrennarinn er “Set me free” þægilegur danssmellur en með örlítið meira fönk ívafi og sterkum etnískum áhrifum. Texti lagsins fjallar um nauðsyn þess að elska sjálfan sig og sleppa takinu af öllu því sem er slæmt fyrir sjálfsmyndina. Mikilvæg skilaboð og góð vísa er svo sannarlega aldrei of oft kveðin. Og Eden er meira en tilbúin til að láta ljós sitt skína skært í vor.