Albanía treystir á Anxhelu Peristeri og “Karma” í Rotterdam.


Þá er leiðinda gámabruninn sem árið 2020 var, á enda. Við ætlum ekki einu sinni að tala um hversu mikið ógeð það ár var og segjum því eins og þau í Áramótaskaupinu: “2020 má fokka sér!” Nú er komið nýtt ár og búið að fullvissa lýðinn um að Eurovision 2021 fari fram í Rotterdam í maí, hvað sem á dynur. Hipp hipp húrra! En það þýðir að okkar bíður dásamleg júróvertíð með ný lög, nýjar vonir og nýjar væntingar. Störtum nú öðru og BETRA júróári með því að kíkja á hvað Albanir ætla að bjóða okkur upp á að þessu sinni.

Margir af keppendum seinasta árs fá annað tækifæri til að keppa fyrir hönd síns lands, þar sem hlutirnir fóru nú eins og þeir fóru. En Arilena Ara, sem vann FiK 2019 er því miður ekki í þeirra hópi, og þurfti að stíga til hliðar og rýma fyrir öðrum vinningshafa þessarar epísku söngvakeppni sem fagnar um þessar mundir 59 ára afmæli sínu og er ein langlífasta keppni sinnar tegundar í Evrópu, en aðeins Sanremo keppnin er eldra eintak. Arilena skildi þó eftir stóra skó til að fylla í og þann 23. desember síðastliðinn, hringdu Albanir inn jólin fyrir júróvisjónaðdáendur á vesturhvelinu og krýndu söngkonuna Anxhelu Peristeri sigurvegara FiK 2020.

Það var að sjálfsögðu öllu til tjaldað í Tirana…svona eins miklu og hægt er í miðjum heimsfaraldri. 26 lög kepptu til sigurs, en í stað þess að stíga á svið fyrir framan þúsundir áhorfenda eins og venjulega, var flutningur hvers lags fyrir sig tekin upp fyrirfram og síðan var öllu skipt niður á tvö undanúrslitakvöld 21. og 22. desember, og síðan allsherjar úrslitakvöld þann 23. desember þar sem 18 lög kepptu til úrslita og réði 7 manna dómnefnd því hvaða lag myndi fara fyrir hönd Albaníu til Hollands. En þrátt fyrir ýmsa annmarka, var FiK keppnin þrusuflott að vanda og maður fann ekki mikið fyrir því að þetta væri fyrirfram upptekið og án áhorfenda. Sýnir bara og sannar að þetta er alveg raunhæfur möguleiki í Rotterdam EF allt fer fjandans til aftur, sem við vonum að sjálfsögðu að gerist ekki!

Anxhela Peristeri flutti dramatísku kraftballöðuna “Karma” með slíkum myndarbrag að það var altalað innan júróbúbblunnar hvað hún er mikill klettur og býr yfir nánast stóískri ró. Anxhela er engin grænjaxl á tónlistarsviðinu en þessi tæplega 35 ára gamla söngkona er vel þekkt í heimalandinu, sem og í Grikklandi þar sem hún bjó um tíma og keppti m.a.s. í gríska X-Factor, sem að sjálfsögðu vakti verðskuldaða athygli á henni.

Albanir, eins og við vitum öll, eru þekktir (eða alræmdir) fyrir að breyta framlögum sínum svo algjörlega að þau eru nánast óþekkjanleg þegar þau loksins mæta á svið í Eurovision. Breyttur taktur, breytt viðlag, nýr texti á ensku… allt er þetta sér albanskt fyrirbrigði, en Anxhela hefur fullvissað okkur um að “Karma” fái að standa óbreytt og trútt sínum uppruna. “Lagið verður á albönsku, því það var alltaf hugmyndin frá upphafi að hafa lagið á albönsku” sagði Anxhela í viðtali stuttu eftir sigurinn.

Og þar höfum við það. Nýtt júróár og fyrsta framlagið er komið í hús í boði Albaníu. “Karma is a b***h” verður vonandi ekki að áhrínisorðum í Rotterdam og við óskum Anxhelu og teyminu hennar alls hins besta á komandi mánuðum.