Put your middle finger up! – Blind Channel rústar samkeppninni í UMK 2021


Það var sko aldeilis mikið í gangi laugardaginn 20. febrúar, því þá fóru fram þrjár úrslitakeppnir og tvær undanúrslitakeppnir í Evrópu. Norðmenn, Spánverjar og Finnar völdu sín framlög til Eurovision og nú ætlum við aðeins að renna yfir hina epísku forkeppni Uuden Musiiki Kilpailu eða UMK hjá frændum okkar Finnum.

Finnar eru aldrei að djóka þegar kemur að því að halda forkeppni fyrir Eurovision og showið í Tampere á laugardagskvöldið sveik engan, fremur en venjulega. Ding Dong drottningin Krista Sigfrieds var fjarri góðu gamni að þessu sinni, þar sem hún er í fæðingarorlofi, en söngvarinn Antti Tuisku tók við keflinu og kynnti keppnina af myndarbrag. Hann er fáránlega mikill performer og startaði kvöldinu með hvelli þegar hann fékk aðra og ekki síðri drottningu, Eriku Vikman, til liðs við sig og fluttu þau massíva lagasyrpu sem að sjálfsögðu innihélt uppáhaldslag margra, “Cicciolina“. Góð byrjun á góðu kvöldi.

Sjö lög kepptu til úrslita í ár, og var sigurvegarinn frá því í fyrra, hann Aksel að sjálfsögðu meðal keppenda, en hann flutti ballöðuna “Hurt”. Eistneska söngkonan Laura Pöldvere, sem týndist í Verónuborg hérna um árið, hefur ratað nokkuð veginn rétta leið heim aftur, en tekið smá beygju til Finnlands og flutti lagið “Play”. Svo var mættur söngvarinn Danny, en hann er einskonar Hörður Torfa þeirra Finna og einnig fyrrverandi eiginmaður Eriku Vikman, en þau skildu með látum á vormánuðum 2020. Ætli það hafi ekki verið neitt vandræðalegt andrúmsloft baksviðs? Danssveitin Teflon Brothers X Pandora stigu fyrst á svið, en lengi vel framan af var þeim spáð sigri. En það var hinsvegar Nu Metal sveitin Blind Channel sem gjörsamlega slátraði keppinautum sínum og vann afgerandi sigur, bæði hjá dómnefndum og almenningi.

Almenningur hafði 75% vægi í kosningu á móti 25% vægi alþjóðlegrar dómnefndar, en sú samanstóð af dómnefndum frá Bretlandi, Sviss, Póllandi, Hollandi, Spáni, Íslandi (Klemens Hannigan var okkar maður í brúnni) og Bandaríkjunum af einhverjum ástæðum. Þegar stig höfðu verið talin, hafði Blind Channel 479 stig úr símakosningu, en Teflon Brothers X Pandora voru langt á eftir í öðru sæti með 150 stig. Í dómnefndarkosningu fengu drengirnir tólfur frá nánast öllum dómnefndum og höfðu 72 stig upp úr krafsinu þar, en söngvarinn Oskr fylgdi á eftir með 62 stig. Aumingja Aksel varð að láta sér lynda 3. sætið þar, en 5. sætið hjá almenningi. Og Laura greyið sótti hins vegar ekki vatnið yfir lækinn og varð í síðasta sæti hjá bæði almenningi og dómnefnd. Ái.

Blind Channel var stofnuð árið 2013 og má greinilega heyra áhrif frá Nu Metal/rappsveitunum Linkin Park og Limp Bizkit, sem voru upp á sitt besta í kringum aldamótin.  “Dark Side” lýsa drengirnir sem árásargjörnu poppi, enda keyrir lagið á fullri ferð allan tímann og það eru svo sannarlega ekkert verið að drekkja okkur í dúlleríi og kósíheitum. Blind Channel liðar viðurkenna að textinn sé vissulega mjög dimmur, t.a.m er tilvísun í “27 ára klúbbinn”, sem, fyrir þá sem ekki vita, er samansafn tónlistarmanna sem létust 27 ára, eins og Janis Joplin, Amy Winehouse og Kurt Cobain. En strákarnir segja líka að “Dark Side” sé líka einskonar þjóðsöngur þeirra sem vilja bara gefa kerfinu puttann. “Þetta er lag fyrir þá sem finnst þeir vera útundan eða ekki nógu góðir”. 

Við erum nú alltaf að elska finnskan flótta frá kerfinu, ekki satt? Það verður hressandi að heyra eitt strangheiðarlegt Nu Metal/rappnúmer á sviðinu í Rotterdam og klárt mál að drengirnir í Blind Channel munu svo sannarlega rugga bátnum pínulítið. Onnea Suomi!