Dramatískur sigur TIX í Melodi Grand Prix


Það verður ekki sagt að Norðmenn hafi lagt lítið á sig til að finna hið eina rétta Eurovisionlag 2021. Eftir sex vikur, fimm undanúrslitaþætti og langan svartapétursþátt var loksins komið að úrslitum Melodi Grand Prix í gær. Poppprinsinn TIX kom, sá og sigraði og ekki eru allir sáttir í Eurovisionlandi.

Fyrirkomulag keppninnar í ár var með þeim hætti að sex lög voru valin af fagdómnefnd beint í úrslit MGP. Önnur framlög kepptu í fimm undanúrslitaþáttum þar sem eitt lag komst í úrslit hverju sinni. Í svartapétursþættinum, Sistesjansen, komst síðan eitt lag til viðbótar í úrslitaþáttinn. Ulrikke sem vann Melodi Grand Prix í fyrra með lagið Attention var boðið sæti í úrslitunum en hún afþakkaði pent. Hún átti þó frábæra innkomu á úrslitakvöldinu þar sem hún flutti bæði Attention og nýtt lag úr smiðju sinni, Falling apart.

Óhætt er að segja að lögin sem kepptu til úrslita hafi verið fjölbreytt. Þarna  var Sama-poppið þeirra í Keiino, brassband með gríðargóðan húkk, 80’s popp með Flashdance ívafi, súpergrúppa með sveitapopp, hugljúfar ballöður og gamall rokkhundur. Að loknum flutningi allra 12 laganna var kosið um hvaða 4 lög færu áfram í gullúrslit. Kosningin fór fram í gegnum vef NRK og gilti kosning almennings 100%. Blåsemafian feat. Hazel, Jorn, TIX og Keiino reyndust fjögur efstu lögin eftir að kosningu lauk.

Eftir aðra netkosningu var ljóst að gulleinvígið yrði á milli poppprinsins TIX og uppáhald Eurovisionaðdáenda, Keiino. Mikið álag reyndist vera á kosningakerfinu en yfir 2 milljónir atkvæða voru send inn þetta kvöld. Einhverjir áttu í vandræðum með að greiða atkvæði en áður en kom að tilkynningu sigurvegara var sérstaklega tekið fram að sigurvegarinn hefði unnið óyggjandi sigur. Þá hugsuðu flestir Eurovision aðdáendur, sem dýrka og dá Keiino eftir sigur þeirra í símakosningu Eurovision 2019, að sigurinn væri í höfn. En nei, aldeilis ekki, það var akkúrat öfugt. TIX hafði unnið og það með 100.000 fleiri atkvæðum en Keiino!

Andreas Haukeland, betur þekktur sem TIX, er einn af vinsælustu tónlistarmönnum Noregs um þessar mundir. Andreas, sem er 27 ára, er greindur með Tourette‘s og er sviðsnafnið TIX vísun í kækina. TIX varð fyrst þekktur í Noregi eftir útgáfu smella sem nutu mikillar hylli menntaskólanema í „russ“ partýstandi. Þeir sem hafa horft á Skam ættu að þekkja tilvísunina til “russ” en fyrir hina þá líkist tónlistin helst því sem ClubDub er að gera hér á landi. Lagið Fallen Angel fjallar um þá angist sem fylgir óendurgoldinni ást. Eftir sigurinn hélt Tix hjartnæma ræðu og líkti sjálfum sér við ljótan andarunga sem nú hafi breyst í svan (ahhh þaðan kom vængjaþemað!).

Noregur keppir í fyrri undankeppni Eurovision þann 18. maí nk.