Og árin eru orðin fjörtíu!


What´s another Year söng Johnny Logan um árið. Eitt ár í viðbót breytir kannski ekki öllu. En tíminn líður hratt á gervihnattaöld eins og segir í kvæðinu og í dag eru árin orðin fjörtíu síðan Johnny söng til sigurs í Eurovision um eitt ár enn. Af því tilefni er einmitt þessi keppni og nokkur vel valin lög úr henni rifjuð upp í dag.

John Kennedy O´Connor vill meina í bók sinni The Eurovision Song Contest 50 years, the official history að það hafi verið kraftaverk að keppnin hafi yfirleitt farið farið fram árið 1980. Ísraelar ætluðu fyrst að taka það að sér þar sem þeir unnu árið á undan en á endanum voru víst ekki til neinir peningar í það. Þá áttu Spánverjar að halda keppnina þar sem þeir enduðu í 2. sæti 1979, svo Bretar sem höfðu nokkrum sinnum áður tekið þetta að sér. En að lokum voru það Hollendingar sem tóku keppnina upp á sína arma og fór hún fram í Nederlands Congresgebouw, í dag þekkt sem World Forum í Haag. Kynnir var hollenska leikkonan Marlous Fluitsma. Reyndar voru með henni 18 aðrir kynnar. Marlous kynnti sjálf hollenska lagið, en kynning annarra laga var í höndum aðila frá viðkomandi landi. Næstu 40 ár hélt sigurþjóð landsins sem hafði unnið árið áður alltaf keppnina og nú er bara spurning hvað gerist árið 2021. Stigakerfið sem við þekkjum í dag var fyrst notað árið 1975, en þarna var í fyrsta sinn gefin stig í réttri röð, það er frá einu og upp í tólf með það að markmiði að gera stigagjöfina meira spennandi. Afríkuríkið Marocco var með í þetta eina skipti og söng á arabísku.

Maggie McNeal keppti fyrir hönd Hollands. Hún söng lagið Amsterdam. Hún hafði áður tekið þátt árið 1974 sem hluti af dúettinum Mouth & MacNeal með lagið I See A Star sem varð mjög vinsælt. Áður höfðu þau slegið í gegn með lögunum How Do You Do og Hello-A. Amsterdam endaði í 5. sæti.

Lúxemborgarar voru með lag sem trúlega átti að höfða til barna þótt þarna væri enn væri val um sigurvegara alfarið í höndum dómnefnda.  Þetta var lagið um mörgæsapabba, Papa pingouin. Það voru frönsku tvíburasysturnar Sophie og Magaly sem fluttu. Lagið er eftir Ralph Siegel og  Bernd Meinunger sem hafa samið fleiri Eurovisionlög en flestir ef ekki allir aðrir. Lagið varð mjög vinsælt í Frakklandi.

Anna Vissi var að keppa í fyrsta skiptið af þremur með Autostop og fór hún fyrir Epikouri hópnum fyrir hönd Grikklands. Hún keppti næst fyrir Kýpur tveimur árum síðar með lagið Mono I Agapi og svo aftur fyrir Grikkland með lagið Everything þegar keppnin var haldin í Aþenu árið 2006.

Norska lagið var auðvitað öðruvísi, Sverre Kjelsberg og Mattis Hætta með lagið Samiid Ædnan. Mattis er klæddur eins og sami og joikar í hluta lagsins alveg eins og Norðmenn gerðu líka í fyrra sælla minninga. Þarna kom það út eins og óvænt atriði í miðju lagi, frumlegt og skemmtilegt!

Lag númer 400 var í þessari keppni, heitir Hé Hé M´sieurs, Dames og var flutt af Profil hópnum frá Frakklandi. Búningarnir voru með pallíetturegnboga, sem er ekta Eurovision og má jafnvel líka skilja sem skilaboð inn í baráttu samkynhneigðra.

Sænska lagið hét Just Nu og var flutt af Tomasi Ledin. Hann hefur verið í bransanum lengi. Var meðal annars í bakröddum fyrir ABBA 1974. Frægastur er hann fyrir lagið What are you doing tonight sem kom út árið 1983. En hann er fyrsti Eurovisionkeppnandinn með sítt að aftan OG í leðurbuxum. Þvílíkur töffari!

Í þessari keppni var eina lagið sem heitir Eurovision. Það endar líka á broti úr Te-Deum eða Eurovisionstefinu.  Það er belgískt, flutt af Telex hópnum. Það má segja að lagið hafi verið afar nýtískulegt og mögulega á undan sinni samtíð, einhvers konar nýbylgjupopp eða raftónlist. Telex hópurinn var mikill frumkvöðull í raftónlist og átti síðar meðal annars eftir að vinna með Eurovisionstjörnunni Plastic Bertrand og heimsþekktum hljómsveitunum, Depeche Mode og Pet Shop Boys.

Hin þýska Katja Epstein var að keppa í 3ja sinn. Hún var að þessu sinni með trúða með sér, enda heitir lagið Theater og er sviðsetningin afar skemmtileg. Katja varð í öðru sæti, en hún hafði verið í 3ja sæti í Eurovision bæði 1970 og 1971. Þetta lag er líka eftir Ralph Siegel og textinn er eftir Bernd Meinunger.

En eins og áður hefur komið fram og flestum er kunnugt var það Johnny Logan sem sigraði fyrir hönd Írlands með lagið What´s Another Year. Sjálfur segir hann algjöra tilviljun að allt gekk upp í þessari fyrstu Eurotilraun hans. Lagið er eftir Shay Healy. Þegar Vinir Sjonna kepptu fyrir Íslands hönd árið 2011 tóku þeir upp sína útgáfu af þessu lagi. Shay heyrði hana og sagði hana eina þá bestu sem hann hafði heyrt af laginu enda er þetta afar vel gert hjá Matthíasi Matthíassyni og félögum.

Eins og þekkt er var þetta aðeins fyrsti hluti í sigurgöngu Johnny Logan í Eurovision. Hann mætti næst sem lagahöfundur árið 1984 með lagið Terminal  3 sem Linda Martin söng og varð í 2. sæti. Árið 1987 flutti hann eigið lag Hold Me Now og sigraði.  Fimm árum síðar söng Linda aftur lag Johnnys, í þetta sinn hét lagið Why Me og já sigraði. Johnny Logan er enn bæði eini flytjandinn og lagahöfundurinn sem hefur sigrað tvisvar í Eurovision.