Sögustund frá Írum og Lesley Roy


“Og hér koma hinir happasælu Írar” voru upphafsorð Jakobs Frímanns Magnússonar þegar hann kynnti Eimear Quinn og félaga á svið í Osló fyrir 24 árum síðan. Enda voru þeir happasælir það ár og negldu seinustu alslemmu sína á fáránlega góðri sigurgöngu sinni á 10. áratug seinustu aldar. Síðan þá hefur hvorki gengið né rekið hjá þessum viðkunnalegu frændum okkar og írsk framlög hafa ekki átt upp á pallborðið á seinustu tuttugu árum og hafa oftar en ekki haldið sig hægra megin á stigatöflunni eða einfaldlega ekki komist áfram. Það er greinilega kalt á toppnum.

Í fyrra var það söngkonan Sarah McTiernan sem var send til Tel Aviv með lagið „22″ og nokkuð ljóst frá upphafi að írskur sigur léti bíða lengur eftir sér, enda sviðsetningin skrítin og greinilegt að Söruh leið áberandi illa í allt of þröngu og óþægilegu pilsi. Hún uppskar einungis 16 stig og endaði í allra seinasta sætinu í undankeppninni og írskir Júróaðdáendur… voru bara alls ekkert hissa. Innbyrðis val RTÉ á flytjendum undanfarin ár hefur farið vægast sagt illa í heimafólk og þeim var einstaklega uppsigað við Söruh greyið sem lenti hreint út sagt í grimmu einelti bæði fyrir og eftir keppnina. Fussum svei bara!

Í ár hélt RTÉ sig við innbyrðis val þrátt fyrir óánægju almennings og kallaði söngkonuna og lagahöfundinn Lesley Roy í hús, og nú bar svo við að efasemdarraddirnar voru ekki jafn háværar og fyrr. Fólk virtist sáttara við valið, enda er Lesley öfgahress pía sem lætur ekki vaða yfir sig svo glatt. Hún er fædd í Dublin árið 1986 og hefur verið í bransanum síðan um tvítugt. Hún býr til skiptis í New York og heimaborginni og á góðan feril að baki. Lesley hefur starfað með ekki ómerkara fólki en Max Martin og Marc Jordan og m.a samið lög fyrir Adam Lambert, kántrístjörnuna og One Tree Hill leikkonuna Jönu Kramer og dönsku stórstjörnuna Medinu. Það hefur því verið mikið að gera hjá Lesley.

Lagið “Story of my life” er eiturhresst popp í anda Katy Perry og er samið af Lesley sjálfri ásamt Robert Marvin, Catt Garvin og Tom Shapiro. Texti lagsins vísar í upplifun Lesley á bæði tónlistarbransanum og lífinu sjálfu, en hann hvetur fólk til að vera ekki inni í einhverjum fyrirfram ákveðnum kassa, heldur vera maður sjálfur og lifa lífinu eins og maður vill. En án þess að vera á einhverjum bömmer, því lífinu ber að fagna! Og að sögn Lesley geta allir tengt við þennan texta hvernig sem aðstæður eru. Og landar hennar voru greinilega að tengja meira en oft áður, því í fyrsta skipti í Guð má vita hversu mörg ár, var almenn ánægja með bæði lag og flytjanda. “Story of my life” fór beint á toppinn yfir mest spiluðu lögin á Youtube á Írlandi þegar það kom út í byrjun mars og Írar voru orðnir temmilega bjartsýnir á betra gengi, áður en allt fór í hönk.

Það hefði því verið poppslagari um persónulega sigra, flutt af einstaklega hressri og skemmtilegri söngkonu með munninn fyrir neðan nefið sem hefði verið fulltrúi Íra í Rotterdam. Það er ekki orðið ljóst hvort Lesley Roy muni vera áfram í bílstjórasætinu á næsta ári, en þangað til er um að gera að njóta “Story of my life” og na-na-na-na sig í gegnum lífsins erfiðleika!